Erlent

Það var ég eða hann segir lögreglumaður sem skaut kollega sinn eftir rifrildi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Steve Russell/Toronto Star - Getty Images)

Réttarhöld eru hafin yfir kanadískum lögreglumanni sem var skotinn af öðrum lögreglumanni eftir rifrildi þeirra á milli úti á vettvangi. Lögreglumaðurinn sem var skotinn er ákærður fyrir mótþróa við handtöku, líkamsárás með vopni og árás á lögregluþjón. Sá sem skaut segir að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.

Atvikið átti sér stað í Ontario í Kanada árið 2018. Þar voru lögreglumennirnir Nathan Parker og Shane Donovan á vettvangi bílslyss þar sem verið var að endurskapa slysið í þágu rannsóknar á slysinu. Donovan var yfirmaður á vettvangi og skipaði hann Parker að koma í veg fyrir að vegfarendur gætu ekið á veginum þar sem lögregla var við störf.

Eitthvað virðist það hafa farið öfugt ofan í Parker sem ætlaði sér að yfirgefa svæðið. Þegar Donovan bað hann um að vera áfram sagðist Parker þurfa að fara á klósettið. Það var þá sem hiti hljóp í leikinn.

Donavan ræskti sig og minnti Parker á að hann væri yfirmaður á svæðinu. Samkvæmt frétt Guardian stuggaði Parker þá við Donovan. Tilkynnti Donovan þá Parker að hann væri handtekinn. 

„Já, þú vilt gera þetta svona“

Í réttarsalnum greindi Donovan frá því að á því augnabliki hafi hann fengið bylmingshögg frá Parker.

Við það hafi Donovan ætlað að draga úr spennunni með því að draga sig í hlé en Parker hafi haldið áfram, meðal annars með því að grípa til lögreglukylfu sem hann var með á sér.

Sagðist Donovan þá hafa óttast um líf sitt þannig að hann mundaði byssu sína.

„Já, þú vilt gera þetta svona,“ er Parker þá hafa sagt er hann dró upp sína eigin byssu.

„Ég vissi að ef hann mundi grípa til byssunnar myndi hann drepa mig. Það var ég eða hann,“ sagði Donovan sem alls hleypti af níu skotum. Alls hlaut Parker fjögur skotsár auk annarra sára.

Saksóknarar kærði Donovan í fyrstu vegna málsins fyrir tilraun til morðs en ákærurnar voru látnar niður falla, og þess í stað var Parker ákærður fyrir sinn þátt í málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×