Innlent

Flúðu hitann frá nýja hraun­straumnum: „Þetta er á þeim hraða að þú hleypur ekkert frá þessu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá eldgosinu við Fagradalsfjall.
Frá eldgosinu við Fagradalsfjall. Vísir/Vilhelm

Gosstöðvunum við Fagradalsfjall hefur verið lokað vegna óvænts hraunstraums sem rennur nú á miklum hraða í Nátthaga. Gífurlegur hiti er við hraunstrauminn og hafa björgunarsveitarmenn þurft að hörfa undan honum.

Lögreglan og björgunarsveitir vinna nú að rýmingu svæðisins vegna hraunsstraumsins sem rennur suður í Geldingadali og í Nátthaga. Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, segir hrauntjörn, sem hafði myndast við uppsprettu hraunsins, hafa farið af stað og renna að hluta yfir gönguleið A. Ekki sé hægt að segja til um hvaða stefnu hraunflæðið taki, mikill hiti er af því og mengun. Þess vegna sé gripið til rýmingar og lokunar.

„Ég skil fólk alveg, þetta er eins og flugur á skít. Það sogast að þessu en er ekki að átta sig á menguninni þegar þetta er svona heitt. Það er gríðarlegur hiti í þessu. Mínir menn eru búnir að bakka út úr hita,“ segir Bogi Adolfsson.

Hraunstraumurinn nýi hefur brotið sér leið framhjá leiðigörðunum og er á hraðri leið í Nátthaga. 

Er óttast að hraunstraumurinn komist að Suðurstrandavegi og renni þar yfir?

„Nei nei, maður veit ekki. Kannski ekki í þessari lotu, en þetta mun ryðjast eitthvað áfram. Við vitum ekki hvað þetta gerir almennilega, þess vegna er gripið til þessarar ráðstafana. 

Þú segir að þetta renni á miklum hraða, er það hraðar en þið hafið áður séð í þessu gosi?

„Nei, ekki endilega. En þetta er á þeim hraða að þú hleypur ekkert frá þessu.“

Hann hvetur fólk til að fara varlega.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×