Erlent

Saksóknari bað um að forsætisráðherra Haítí yrði ákærður og var fljótt rekinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Ariel Henry, forsætisráðherra Haítí. Hann mun hafa rætt við mann sem er grunaður um aðkomu að morði fyrrverandi forseta landsins, tvisvar sinnum skömmu eftir að morðið var framið í sumar.
Ariel Henry, forsætisráðherra Haítí. Hann mun hafa rætt við mann sem er grunaður um aðkomu að morði fyrrverandi forseta landsins, tvisvar sinnum skömmu eftir að morðið var framið í sumar. EPA/Jean Marc Herve Abelard

Ríkissaksóknari Haítí var rekinn í skyndi eftir að hann fór fram á að forsætisráðherra landsins yrðu ákærður í tengslum við rannsókn á morði fyrrverandi forseta landsins. Sérfræðingar segja brottreksturinn sjónarspil og að ástandið í Haítí sé ruglingslegt vegna baktjaldamakks.

Bed-Ford Claude, saksóknarinnar sem var rekinn, vildi krefja Ariel Henry, forsætisráðherra, svara um það af hverju hann ræddi tvisvar sinnum við aðila sem liggur til gruns um að hafa komið að morði Jovenel Moise, forseta, nokkrum klukkustundum eftir að hann var myrtur á heimili sínu.

Moise var myrtur þegar hópur málaliða frá Kólumbíu gerðu atlögu að heimili forsetans þann 7. júlí. Tugir manna hafa verið handteknir vegna morðsins og þar á meðal átján fyrrverandi hermenn frá Kólumbíu.

Þeir munu hafa verið ráðnir af bandarísku öryggisfyrirtæki og segjast hafa fengið skipun um að aðstoða við handtöku Moise. Þeir hafi í raun verið plataðir.

Ráðamenn og lögregla í Haítí hafa beint spjótum sínum að Christian Emmanuel Sanon, presti sem haldið hefur til í Flórída, og sakað hann um að vilja taka við af Moise. Hann er þó ekki talinn vera höfuðpaur ráðabruggsins um að myrða Moise.

Sjá einnig: Hinir grunuðu tengdir við fundi um framtíð Haítí

Eiginkona forsetans hefur sakað auðjöfra í Haítí um morðið. Það gerði hún í viðtali við New York Times í sumar.

Rannsókn morðsins hefur frá upphafi verið ruglingsleg eins og ástandið í Haítí.

Henry er sagður hafa rætt tvisvar sinnum við fyrrverandi starfsmann dómsmálaráðuneyti Haítí í síma skömmu eftir að Moise var myrtur. Sá maður heitir Joseph Felix Badio og eiga þeir að hafa rætt saman í minnst sjö mínútur skömmu eftir morðið, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Blaðamenn AP komu höndum yfir bréf sem saksóknarinn skrifaði þar sem hann sagði að næg sönnunargögn væru fyrir hendi til að ákæra Henry. Hann sagði forsætisráðherrann hafa rætt tvisvar sinnum við Badio að morgni 7. júlí.

Þá hafi Henry verið á hóteli í Port-au-Prince en Badio sé talinn hafa verið nærri heimili Moise. Badio hefur ekki verið handtekinn enn og er ekki vitað hvar hann heldur til. Badio var rekinn frá ráðuneytinu í maí eftir að hann var sakaður um að brjóta ótilgreindar siðferðisreglur.

Í frétt dagblaðsins Le Nouvelliste segir að Henry hafi verið meinað að yfirgefa Haítí í bili.

Óljóst er hvort brottrekstur saksóknarans muni hafa áhrif á rannsóknina á morði Moise en henni er stýrt af dómaranum Garry Orélien. Hann getur ákveðið upp á eigin spýtur að ákæra Henry eða ekki, sama hvað nýi ríkissaksóknarinn segir.

Orélien er samt nýbúinn að taka við rannsókninni. Forveri hans steig til hliðar í síðasta mánuði vegna „persónulegra ástæðna“. Það gerði hann í kjölfar þess að aðstoðarmaður hans dó við óljósar kringumstæður, eins og það er orðað í frétt AP.

Dómarar og embættismenn segjast hafa fengið hótanir vegna rannsóknarinnar.

Ruglingslegt ástand og valdabarátta

Sérfræðingar sem AP ræddi við telja að greinilega séu mismunandi fylkingar að berjast um völd í Haítí. Milli þeirra sem styðja Henry annars vegar og þeirra sem studdu Moise hins vegar.

„Ástandið er mjög ruglingslegt,“ sagði Robert Fatton, sérfræðingur um málefni Haítí. Hann sagði að það ætti að koma fljótt í ljós hver muni vinna þessa valdabaráttu.

Mosie var einkar óvinsæll forseti og var sakaður um einræðistilburði. Degi áður en hann dó skipaði hann sinn sjöunda forsætisráðherra á kjörtímabili sínu. Þar áður hafði Claude Joshep, utanríkisráðherra verið starfandi forstætisráðherra. Moise skipaði svo Ariel Henry sem forsætisráðherra áður en hann dó.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×