Fótbolti

Meiri líkur á því að Liverpool vinni Meistaradeildina en Messi með PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi talar við tyrkneska dómarann Cuneyt Cakir í eftirminnilegum leik á Anfield árið 2019.
Lionel Messi talar við tyrkneska dómarann Cuneyt Cakir í eftirminnilegum leik á Anfield árið 2019. EPA-EFE/NEIL HALL

Tölfræðingarnir á Gracenote hafa reiknað út sigurlíkur liðanna sem taka þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í ár en Bayern München er sigurstranglegasta liðið áður fyrsti leikur fer fram.

Meistaradeildin fer af stað í kvöld og eins og oft áður hafa spekingar leikið sér að því að reikna sigurlíkur liðanna 32 sem komust í riðlakeppnina.

Bayern München er efst á blaði með átján prósent sigurlíkur í Meistaradeildinni, einu prósenti á undan Manchester City liðinu.

Real Madrid er í þriðja sæti með tólf prósent og Barcelona er með tíu prósent sigurlíkur í fjórða sætinu.

Barcelona missti kannski Lionel Messi fyrir tímabilið en er samt sigurstranglegra í keppninni að mati Gracenote en Evrópumeistarar Chelsea þrátt fyrir að Lundínaliðið hafi bætt við sig einum besta framherja heims í Romelu Lukaku.

Sigurlíkur Chelsea eru átta prósent en liðið er einu prósenti á undan Liverpool sem er í sjötta sæti listans.

Liverpool er þannig á undan ofurliði Paris Saint Germain sem deilir sjöunda sætinu með Atletico Madrid þrátt fyrir að Parísarliðið hafi bætt við sig hverri stórstjörnunni á fætur annarri í sumar.

Stærsti liðstyrkurinn var auðvitað í sjálfum Lionel Messi en sigurlíkur hans í Meistaradeildinni minnkuðu við það að færa sig frá Barcelona til Parísar.

Bandaríska tölfræðisíðan Fivethirtyeight spáir Manchester City sigri í Meistaradeildinni en í næstu sætum eru síðan Bayern München og Liverpool en svo fylgja Chelsea og Barcelona eftir í næstu sætum.

Þeir ganga enn lengra í að afskrifa Paris Saint Germain en auk Real Madrid og Manchester United þá eru einnig Ajax og Dortmund með meiri sigurlíkur en Lionel Messi, Neymar og félagar þeirra í Paris Saint Germain.

Áður en þú getur unnið Meistaradeildina þá þarftu náttúrulega að komast upp úr riðlinum þínum. Þrjú lið eru með níutíu prósent líkur á að ná því samkvæmt útreikningum Gracenota eða lið Real Madrid, Chelsea og Bayern München.

Fimm lið til viðbótar eru með áttatíu prósent líkur á því að komast í útsláttarkeppnina samkvæmt útreikningum Gracenote en hvorki Manchester United (78%) né Liverpool (75%) eru í þeim hópi. Þar eru aftur á móti Manchester City, Barcelona, Sevilla, Juventus og Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×