Innlent

Oft komnir á fremsta hlunn með að hætta við

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Aðstandendur útsýnispallsins á Bolafjalli voru oft komnir á fremsta hlunn með að hætta við byggingu pallsins, að sögn bæjarstjóra Bolungarvíkur. En ástríðan fyrir verkefninu trompaði öll bakslög og nú er pallurinn nánast tilbúinn.

Aðeins tvö ár eru síðan hugmyndir að útsýnispallinum litu fyrst dagsins ljós. Stefnt er að því að byrja að skrúfa gólf í pallinn 20. september og opna hann um viku síðar.

En bygging pallsins hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Í ágúst voru framkvæmdir stöðvaðar, sem þá var þó nánast lokið, þar sem byggingaleyfi hafði ekki enn verið gefið út. Haft var eftir sérfræðingi hjá Húsnæðis og mannvirkjastofnun að málið væri „eitt það versta sem hann hefði séð“. Bæjarstjóri Bolungarvíkur segir ýmsar ástæður fyrir því að fórst fyrir að fá leyfi.

„Ég held við deilum bara sök í því, við og þeir sem að þessu koma, en byggingaleyfið er komið þannig að það var í rauninni ekkert í pallinum sem kom í veg fyrir að þetta gerðist.“

Útsýnispallurinn er á lokametrunum.Vísir/Sigurjón

Þá þurfti að endurhanna pallinn eftir að búið var að bora festingar í bergið fyrir neðan hann.

„Svo kemur bara símtalið, þetta er ekki hægt, það er ekki hægt að festa pallinn svona, þannig að það var bara smá panikk og fósturstelling í eina nótt og svo var bara byrjað upp á nýtt,“ segir Jón Páll.

Nú á aðeins eftir að setja gólf í pallinn.Vísir/Sigurjón

Og nú hillir loks undir verklok.

„Það hafa verið mörg móment þar sem einhver hefur sagt: Við skulum bara hætta þessu. En allir hafa verið sammála um það að við ætlum að klára þetta, við ætlum að láta þetta gerast, og það er bara íslenska leiðin á þetta. Við setjum undir okkur hausinn, klárum vinnuna, látum þetta gerast og hér erum við komin,“ segir Jón Páll.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.