Innlent

Formaður Ábyrgrar framtíðar um synjun framboðslista: „Ef þetta er ó­lög­legt, þá gætu kosningarnar í heild sinni orðið ó­lög­legar“

Þorgils Jónsson skrifar
Jóhannes Loftsson er formaður Ábyrgrar framtíðar. Hann er ósáttur við að framboðslista flokksins hafi verið hafnað af yfirkjörstjórn í suðurkjördæmi.
Jóhannes Loftsson er formaður Ábyrgrar framtíðar. Hann er ósáttur við að framboðslista flokksins hafi verið hafnað af yfirkjörstjórn í suðurkjördæmi. Vísir/Einar

Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar, lýsir yfir mikilli óánægju með að lista framboðsins hafi verið hafnað af yfirkjörstjórn í suðurkjördæmi í gær. Grundvöllur úrskurðarins var sá að tilskyldum meðmælafjölda var ekki náð og því býður flokkurinn aðeins fram í einu kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi norður.

Jóhannes spyr í pistli á Facebooksíðu sinni hvort ásættanlegt sé „tölvuvillur og vankantar meðmælasöfnunarkerfis ákveði hvort þú megir nýta þér þinn lýðræðislega rétt“.

Hann segir að kjörstjórn hafi tilkynnt honum í gærmorgun að 70 undirskriftir hafi vantað uppá lágmarksmeðmælendafjölda og hann fengi frest til kl. 14, sem var um þrjár og hálf klukkustund.

Suðurkjördæmi er víðfeðmt, frá Sandgerði í vestri, austur að Höfn í Hornafirði, og segir Jóhannes að fyrir utan meinta tæknilega ágalla á kerfinu, hafi þessi frestur gert ómögulegt að ná til íbúa í fjarlægustu byggðarlögum til að safna undirskriftum á blað.

Þar með væri ekki að sjá „að jafngildissjónarmiðum gagnvart kjósendum kjördæmisins hafi verið fylgt.“

Mörg meðmæli sem þau hafi safnað á pappír hafi ekki komist til skila og mörg rafræn meðmæli „blokkuð af gölluðu tölvukerfi“ sem sé óboðlegt í lýðræðissamfélagi.

Jóhannes bætir við: „Ef þetta er ólöglegt, þá gætu kosningarnar í heild sinni orðið ólöglegar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.