Innlent

Hlutu hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs

Eiður Þór Árnason skrifar
Dr. Martin Ingi Sigurðsson, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dr. Erna Sif Arnardóttir.
Dr. Martin Ingi Sigurðsson, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dr. Erna Sif Arnardóttir. Aðsend

Dr. Erna Sif Arnardóttir, lektor við verkfræði- og tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík og Dr. Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Háskóla Íslands og yfirlæknir á sama sviði við Landspítala hlutu hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs í dag.

Verðlaunin voru afhent af Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni Vísinda- og tækniráðs, við hátíðlega athöfn á Rannsóknarþingi Rannís.

Fram kemur í tilkynningu að Erna Sif sé leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna hér á landi, meðal annars sem nýdoktor og aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands. Þá hefur hún starfað sem forstöðunáttúrufræðingur við Svefndeild við Landspítala, klínískur ráðgjafi hjá fyrirtækinu Nox Medical og sem rannsóknasérfræðingur við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Árið 2020 setti hún á fót þverfaglegt Svefnrannsóknasetur við Háskólann í Reykjavík sem hún veitir forstöðu. Jafnframt leiðir Erna Sif rannsókna- og þróunarverkefnið Svefnbyltingin sem hlaut 2,5 milljarða króna styrk frá rammaáætlun Evrópusambandsins á árinu 2020. Er það einn hæsti styrkur sem veittur hefur verið til vísindarannsókna hérlendis.

Erna Sif hefur áður hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á sviði svefnrannsókna. Hún var valin ungur vísindamaður Landspítala árið 2009 og hlaut hvatningarstyrk úr Vísindasjóði Landspítala árið 2011, auk viðurkenninga fyrir framlag sitt á alþjóðlegum vettvangi þar sem hún meðal annars hefur ítrekað haldið boðsfyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum.

Mjög virkur í rannsóknum hér á landi og erlendis

Martin Ingi Sigurðsson er fæddur árið 1982 og lauk kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 en samhliða læknanámi lagði hann stund á doktorsnám í erfðafræði við Háskóla Íslands sem hann lauk með doktorsvörn árið 2011. Hann sérhæfði sig í svæfingalækningum við læknadeild Harvard háskóla og í kjölfarið lauk hann undirsérhæfingu í gjörgæslulækningum og svæfingum við hjarta- og lungnaskurðaðgerðir við Duke-háskóla í Norður-Karolínu. 

Martin tók við starfi prófessors við Háskóla Íslands árið 2019 samhliða stöðu yfirlæknis á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala. Martin Ingi hefur verið mjög virkur í rannsóknum hérlendis og erlendis undanfarin 15 ár. Árið 2011 var hann valinn ungur vísindamaður Landspítala en auk þess hefur hann hlotið fjölda viðurkenninga m.a. fyrir framlag sitt á alþjóðlegum vísindaráðstefnum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Rannís.

Erna Sif Arnardóttir er fædd árið 1981 og útskrifaðist með B.S. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaragráðu í líf- og læknavísindum árið 2007. Hún varði doktorsverkefni sitt í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2013 og var það að hluta unnið við University of Pennsylvania í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Íslands verður miðstöð svefnrannsókna

Ísland verður miðstöð alþjóðlegra svefnrannsókna næstu árin að sögn lektors við Háskólann í Reykjavík sem leiðir verkefnið Svefnbyltinguna. Verkefnið fékk tvo og hálfan milljarð í styrk sem er einn sá hæsti sem hefur verið veittur hér á landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.