Erlent

Norður­kóreskt varnar­lið marseraði í hlífðar­búningum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rauða gæslan var íklædd appelsínugulum hlífðarbúningum við skrúðgönguna.
Rauða gæslan var íklædd appelsínugulum hlífðarbúningum við skrúðgönguna. EPA-EFE/KCNA

Norður-Kórea fagnaði því að 73 ár eru liðin frá stofnun ríkisins í nótt með skrúðgöngu. Athygli hefur vakið að allir þeirra sem tóku þátt í skrúðgöngunni voru klæddir í appelsínugula hlífðarbúninga en engin flugskeyti voru til sýnis, sem gjarnan eru sýnd á slíkum viðburðum í Norður-Kóreu.

Kim Jong Un, leiðtogi ríkisins, var viðstaddur viðburðinum þar sem meðlimir Rauðu gæslunnar, varnarliðs almennings í landinu, marséraði um Kim Il Sung torgið í höfuðborginni Pyongyang á miðnætti í nótt.

Afmælinu var fagnað hátíðlega á Kim Il Sung torgi í Pyongyang í nótt.EPA-EFE/KCNA

Rodong Sinmun, ríkisdagblað landsins, birti myndir af liðinu klætt í appelsínugula hlífðarbúninga með loftþéttar grímur fyrir vitum. Spekúlantar vilja meina að þetta sé tilraun landsins til að sýna að kórónuveirunni sé tekið alvarlega þar í landi.

Einhver vopn voru til sýnis í skrúðgöngunni, til dæmis skammdrægar eldflaugar. Hvergi var þó hægt að sjá þær langdrægu, sem yfirvöld í Norður-Kóreu sýna gjarnan á slíkum viðburðum, til að sýna herafl sitt. Þá flutti Kim enga ræðu, annað en í fyrra þegar hann montaði sig af kjarnorkuáætlun landsins og sýndi ýmsar langdrægar eldflaugar á meðan á skrúðgöngunni stóð.

Kim Jong Un var óhræddur við að taka í hendur félaga sinna uppi á stallinum.EPA-EFE/KCNA

Þó svo að þeir sem tóku þátt í skrúðgöngunni væru klæddir í hlífðarbúningana var enginn þeirra þúsund gesta, sem voru viðstaddir skrúðgöngunni, bar grímu fyrir vitum. Þá sýndi myndefni frá skrúðgöngunni hvernig Kim tók í hendurnar á fólkinu í kring um sig án þess að hika.

Norðurkóresk stjórnvöld hafa ekki gefið það út að nokkur hafi greinst smitaður af veirunni þar í landi en landamærum landsins hefur verið lokað og harðar sóttvarnaaðgerðir eru þar í gildi.

Mannfjöldinn fagnar hér leiðtoganum.EPA-EFE/KCNA


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×