Fótbolti

Hefur áhrif á Ísland að vera án lykilmanna en þekki ekki ástæðurnar

Sindri Sverrisson skrifar
Leon Goretzka á blaðamannafundi í Stuttgart í dag.
Leon Goretzka á blaðamannafundi í Stuttgart í dag. Getty/Tom Weller

Leon Goretzka, miðjubuff Bayern München og þýska landsliðsins, segir það að sjálfsögðu hafa áhrif á íslenska landsliðið að í það vanti lykilleikmenn. Hann kvaðst hins vegar ekki þekkja ástæður þess að þeir yrðu ekki með á Laugardalsvelli á morgun og vildi því ekki tjá sig um þær.

„Auðvitað hjálpar að það vanti lykilmenn í íslenska liðið,“ sagði Goretzka á blaðamannafundi í dag, aðspurður hvort það kæmi til með að gagnast þýska liðinu innan vallar að íslenskir landsliðsmenn hefðu undanfarið verið sakaðir um ofbeldis- og kynferðisbrot.

Þýskur blaðamaður benti Goretzka á að Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson yrðu ekki með í leiknum, en Gylfi var handtekinn í sumar grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku og Kolbeinn greiddi tveimur konum skaðabætur vegna hegðunar sinnar gagnvart þeim.

„Það hefur svo sannarlega áhrif þegar andstæðingarnir eru án mikilvægra leikmanna. En ég þekki ekki ástæðurnar fyrir því að þeir eru ekki með og get ekki tjáð mig um þær,“ sagði Goretzka og virtist undrandi á spurningum um málið.

Þjóðverjar mæta til landsins með höfuðið hátt eftir að hafa tekið toppsæti J-riðils af Armenum með því að vinna þá 6-0 á sunnudaginn. Ísland þarf helst á sigri að halda til að eiga enn einhverja möguleika á að komast á HM en virðist ekki líklegt til afreka eftir 2-0 tap gegn Rúmeníu og 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu. Goretzka hafði fátt um íslenska liðið að segja:

„Við búum okkur auðvitað mjög vel undir þennan leik. Við hugsum aðallega um okkur sjálfa, ætlum að vera vel skipulagðir og halda áfram að bæta okkur í því að komast í góðar stöður og sækja hratt. En við ræðum það svo bara í kvöld við hverju við þurfum að búast frá mótherjum okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×