Fótbolti

FIFA harmar að leik Brasilíu og Argentínu hafi verið frestað

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikil rekistefna tók við þegar að brasilískir heilbrigðisstarfsmenn ruddust inn á völlinn.
Mikil rekistefna tók við þegar að brasilískir heilbrigðisstarfsmenn ruddust inn á völlinn. MB Media/Getty Images

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, segist sjá eftir þeim atburðum sem áttu sér stað sem leiddu til þess að leikur Brasilíu og Argentínu í undankeppni HM 2022 var flautaður af.

Leikurinn var flautaður af eftir að brasilískir heilbrigðisstarfsmenn ruddust inn á völlinn og mótmæltu því að þrír byrjunarliðsmenn Argentínu, og einn varamaður tækju þátt í leiknum. 

Leikmennirnir fjórir eru þeir Giovani Lo Celso og Cristian Romero, leikmenn Tottenham og Emiliano Buendia og Emiliano Martinez, leikmenn Aston Villa.

Ástæða þess að heilbrigðisstarfsmenn Brasilíu ruddust inn á völlin er sú að samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum landsins þurfa allir þeir sem koma frá Bretlandseyjum að fara í 14 daga sóttkví við komuna til landsins. Brasilísk heilbrigðisyfirvöld segja að leikmennirnir fjórir hafi falsað upplýsingar við komuna til landsins.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvenær leikurinn muni fara fram, en í yfirlýsingu FIFA kemur fram að sambandið sjái eftir þeim atburðum sem áttu sér stað og komu í veg fyrir að milljónir aðdáenda gætu fylgst með þessari viðureign tveggja af mikilvægustu knattspyrnuþjóðum heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×