Innlent

Blikur á lofti vegna fellibyljarins Larrys

Kjartan Kjartansson skrifar
Svona leit fellibylurinn Larry á Antlantshafi út frá Alþjóðlegu geimstöðinni í gær. Bandaríski geimfarinn Megan McArthur tók myndina.
Svona leit fellibylurinn Larry á Antlantshafi út frá Alþjóðlegu geimstöðinni í gær. Bandaríski geimfarinn Megan McArthur tók myndina. Megan McArthur/NASA

Veruleg óvissa er í veðurkortum næstu daga vegna fellibyljarins Larrys suður í Atlantshafi. Líklegast er talið að hann gæti átt þátt í suðaustan hvassviðri á landinu í lok næstu helgar.

Larry varð að fjórða stigs fellibyl á Atlantshafi í nótt. Spár gera ráð fyrir því að hann þokist norðar á Atlantshaf þar sem kaldari sjór dregur kraftinn úr honum eftir miðja vikuna, að því er segir í pistli Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings, á veðursíðunni Bliku.

Þar er sagt að „allsherjaróvissa“ sé í veðurspá á okkar slóðum vegna fellibyljarsins og mögulegs stefnumóts hans við lægðabylgju. Nefnir Einar fjóra möguleika um þróun veðurs fram yfir næstu helgi.

Fyrsti möguleikinn er að lægðarleifar Larrys dýpki mikið við Hvarf, syðsta odda Grænlands. Lægðin hafi lítil bein áhrif á Íslandi en hún ryðji á undan sér hlýju lofti norður yfir landið á sunnudag og mánudag eftir kólnandi veður í lok þessarar viku.

Líklegasta niðurstaða veðurspálíkana er að lægðin verði víðáttumikil á Grænlandshafi og henni fylgi þá suðaustan hvassviðri í lok helgarinnar.

Ólíkleg atburðarrás er að Larry magni upp lægð sem hann rekst á sem stefnir svo á landið. Þá er einnig mögulegt að Larry koðni niður langt suður í hafi og Íslendingar finni engin áhrif af honum. Þá verði ofurvenjulegt og aðgerðalítið septemberloft yfir landinu framan af næstu viku með næturfrosti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.