Innlent

Of­beldis­maður á skil­orði grunaður um kyn­ferðis­brot í Eyjum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn á aðfaranótt fimmtudags vegna gruns um að hann hafi brotið kynferðislega á konu í heimahúsi.
Maðurinn var handtekinn á aðfaranótt fimmtudags vegna gruns um að hann hafi brotið kynferðislega á konu í heimahúsi. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem grunaður er um að hafa brotið kynferðislega á konu í Vestmannaeyjum aðfaranótt fimmtudags hefur verið fluttur í fangelsið á Hólmsheiði, þar sem hann afplánar nú fyrri dóm. Hann var í fyrra dæmdur fyrir fólskulega líkamsárás gegn þáverandi kærustu sinni.

Maðurinn, sem er 22 ára, var handtekinn á aðfaranótt fimmtudags eftir að lögregla var kölluð að heimahúsi í Vestmannaeyjum vegna kynferðisbrots. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um að ræða sama mann og var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í fyrra fyrir fólskulega líkamsárás, eftir að hafa gengið í skrokk á 17 ára kærustu sinni, Kamillu Ívarsdóttur, sem greindi frá ofbeldinu í ítarlegu viðtali í Kastljósi.

Kamilla hefur kært manninn fyrir þrjár grófar líkamsárásir, sú fyrsta átti sér stað á Ljósanótt í Reykjanesbæ árið 2018, önnur í október 2019 en sú þriðja í maí 2020. Maðurinn sat inni í fimm mánuði fyrir þá fyrri af tólf mánaða dómi, en þar sem hann hafði setið svo lengi í gæsluvarðhaldi vegna málsins var afplánunartími styttur. Hann hefur nú verið fluttur á Hólmsheiði þar sem hann átti útistandandi dóm. 

Lýsingar Kamillu á ofbeldinu sem hún varð fyrir vöktu mikla athygli á sínum tíma. Sagði hún meðal annars að hann hafi tekið hana upp yfir axlir sínar og kastað henni í gólfið með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund. Því næst hafi hann tekið hana kyrkingartaki.

„Svo hélt hann hníf upp við hálsinn á mér og lýsti því fyrir mér hvað hann myndi gera ef ég myndi fara frá honum,“ sagði Kamilla í viðtali í Kastljósi. Þá hafi maðurinn hótað að drepa Kamillu og fjölskyldu hennar.

Maðurinn er ekki búsettur í Vestmannaeyjum en var staddur þar vegna þess að skipið sem hann vinnur á var þar í landi. Hann hafði aðeins verið í Vestmannaeyjum í hálfan sólarhring þegar hann var handtekinn. Konan sem hann er grunaður um að hafa brotið kynferðislega á var flutt til Reykjavíkur á neyðarmóttöku með þyrlu, þar sem hún gekkst undir læknisskoðun og til að safna sönnunargögnum í þágu rannsóknarinnar.

Tryggvi Ólafsson, lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum, segir í samtali við fréttastofu að rannsókn miði vel áfram en konan mun mæta til skýrslutöku hjá lögreglu síðar í dag.


Tengdar fréttir

Einn í haldi vegna kyn­ferðis­brots í heima­húsi í Eyjum

Karlmaður er í haldi lögreglunnar í Vestmanneyjum í tengslum við rannsókn á kynferðisbrotamáli sem kom upp í heimahúsi í nótt. Ungu konunni sem varð fyrir árásinni var flogið með þyrlu á neyðarmóttöku í Reykjavík.

Of ung til að átta sig á að hún væri í of­beldis­sam­bandi

Kamilla Ívarsdóttir þurfti að þola gróft ofbeldi af hendi fyrrverandi kærasta síns. Hún var fyrsti gestur nýs hlaðvarpsþáttar, Eigin konur, sem er í umsjón Eddu Falak og Fjólu Sigurðardóttur. Í þættinum ræðir Kamilla ítarlega um ofbeldissamband sem hófst snemma á táningsárum hennar. Þegar fram líða stundir vill hún hjálpa konum í sömu sporum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.