Fótbolti

Kom Rúnari Alex líka á óvart að hann fékk að byrja: Ekki verið auðveldir dagar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson slapp hér með skrekkinn eftir mislukkaða sendingu Hjartar Hermannssonar aftur til hans.
Rúnar Alex Rúnarsson slapp hér með skrekkinn eftir mislukkaða sendingu Hjartar Hermannssonar aftur til hans. Vísir/Vilhelm

Rúnar Alex Rúnarsson stóð óvænt í íslenska markinu á móti Rúmeníu í kvöld og komst vel frá sínu þrátt fyrir að hafa fengið á sig tvö mörk. Núll stig á heimavelli voru samt ekki úrslitin sem íslenska liðið var að vonast eftir.

„Ég er sammála því að niðurstaðan sé vonbrigði. Ég veit ekki hvort að það hafi bara vantað eitt til tvö prósent upp á þegar við vorum komnir inn á síðasta þriðjung til að skapa alvöru hættu. Ég held að markvörðurinn þeirra eigi ekki eina einustu vörslu í leiknum en samt erum við trekk í trekk að komast fyrir aftan þá og í góða stöðu. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna í og laga fyrir næsta leik og ég er viss um það að við gerum það,“ sagði Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður íslenska liðsins, eftir 2-0 tap á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum í undankeppni HM í kvöld.

Leiðinlegt mark að fá á sig

„Fyrsta markið var leiðinlegt mark að fá á sig. Klafs og við töpum einvígum sem við eigum ekki að gera sérstaklega ekki á okkar heimavelli. Skot sem breytir um stefnu, endar sem besta fyrirgjöf sögunnar og maður skóflar henni inn á fjærstönginni,“ sagði Alex um fyrri markið sem kom í upphafi seinni hálfleiks. Það seinna kom síðan eftir horn íslenska liðsins.

„Seinna markið er rosalega svekkjandi. Maður vill aldrei fá mark á sig þegar við eigum fast leikatriði. Við vorum graðir í að jafna þennan leik og vildum fá þrjú stig. Við þorðum að stíga upp og spila tvo á tvo og gerðum ráð fyrir því að við myndum vinna þetta einvígi. Svo spila þeir rosalega vel út úr þessu og komast í einn á einn stöðu sem er alltaf erfitt. Góð skyndisókn hjá þeim,“ sagði Alex en er HM-draumurinn úti?

HM-draumurinn er ekki úti

„Nei, hann er ekki úti en líkurnar minnka alltaf og þetta er kannski orðið erfiðara fyrir okkur en við gefumst ekki upp,“ sagði Alex. Hann kom inn í byrjunarliðið fyrir Hannes Þór Halldórsson.

„Þetta kom mér svo sem líka á óvart. Hann er búinn að eiga frábært tímabil og búinn að vera frábær fyrir landsliðið í ellefu ár. Ég er ekki búinn að vera spila mikið undanfarið. Eins og ég hef alltaf sagt þá er ég alltaf klár þegar kallið kemur. Mér fannst ég standa mig vel í dag en svo sjáum við bara til með næsta leik eftir þrjá daga,“ sagði Alex.

Reyndu að láta þetta hafa sem minnst áhrif á sig

Hvernig hafa síðustu dagar verið í þessum erfiðu aðstæðum?

„Þeir hafa ekki verið auðveldir. Við höfum reynt að láta þetta hafa sem minnst áhrif á okkur en hvort að þetta séu þessi eitt til tvö prósent sem vantaði upp á sóknarlega í dag. Hver veit. Þetta var erfiður undirbúningur fyrir þennan leik en mér fannst við standa okkur vel sem lið. Við stóðum saman og gáfum okkur alla í þetta,“ sagði Alex.'

Klippa: Viðtal við Rúnar AlexFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.