Innlent

Hjúkrunar­fræðingur á Land­spítala grunaður um mann­dráp

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. Myndin er úr safni.
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. Myndin er úr safni.

Hjúkrunarfræðingur á geðdeild Landspítalans hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um manndráp. Heimildir fréttastofu herma að hjúkrunarfræðingurinn hafi reynt að þvinga mat ofan í sjúkling með þeim afleiðingum að hann kafnaði. Sjúklingurinn var kona á sextugsaldri en hún lést fyrr í þessum mánuði.

Lögregla segir í tilkynningu að hjúkrunarfræðingurinn sé einnig kona á sextugsaldri og að hún hafi verið úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna á miðvikudag. Í tilkynningunni sagði að talið væri að andlát konunnar sem lést hafi borið að með saknæmum hætti.

Lögregla hyggst ekki tjá sig um málið frekar að svo stöddu. Í yfirlýsingu frá Landspítalanum kemur fram að hann hafi tilkynnti lögreglu og landlækni um óvænt andlát sjúklings á spítalanum. Málið sé til rannsóknar og muni hvorki starfsmenn né stjórnendur tjá sig um það, né staðfesta upplýsingar, á meðan það er til meðferðar hjá þar til bærum yfirvöldum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×