Innlent

Blaut bartuska frá Bjarna, Áslaugu og Sigurði Inga

Snorri Másson skrifar
Jón Mýrdal, veitingamaður á Skuggabaldri.
Jón Mýrdal, veitingamaður á Skuggabaldri. Stöð 2

Næstu þrjár vikur þurfa skemmtistaðir og barir á Íslandi áfram að loka dyrunum klukkan ellefu og tæma staðinn fyrir miðnætti. Reglugerðin er sem sé óbreytt, sem eru meiri háttar vonbrigði fyrir veitingamenn, og vafalaust margan dyggan viðskiptavininn líka.

Jón Mýrdal, sem rekur meðal annars Skuggabaldur og Húrra, lýsir miklum vonbrigðum með ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Hann hafði væntingar um breyttan afgreiðslutíma eftir samskipti við ráðherra ríkisstjórnarinnar.

„Við áttum fund með Áslaugu, Bjarna og samgönguráðherra og þetta hérna er bara algerlega langt frá því sem var rætt þar. Við vorum ekki að krefjast mikils en þetta er bara alveg óbreytt,“ segir Jón í samtali við Vísi.

Jón vísar þar til fundar sem haldinn var í síðustu viku, þar sem fulltrúar nýstofnaðra hagsmunasamtaka næturhagkerfisins ræddu við ráðamenn um lausnir við þeim þungu búsifjum sem skemmtanalífið hefur orðið að þola vegna samkomutakmarkana.

Vissulega hefur skemmtistöðum og börum nú verið heimilað að vera með allt að 200 manns innandyra, en vegna eins metra reglunnar segir Jón að sú heimild breyti litlu.

„Við þurfum bara lengri tíma. Við lögðum til að færa þetta til eitt bara til að biðja um það minnsta. Það eitt hefði bjargað mjög miklu. En þetta? Þetta er bara algerlega blaut tuska miðað við fundinn með ráðherrum. Ég heyri það á veitingamönnum sem ég hef rætt við,“ segir Jón.

„Við gerðum ráð fyrir því að þetta yrði allavega fært til eitt, en í staðinn er bara ekkert verið að gera fyrir okkur. Þetta er eiginlega bara hrikalegt,“ bætir Jón við.

Að mati Jóns hefði mátt útfæra lausnir fyrir bari og skemmtistaði sem fælu í sér notkun hraðprófa, en því er ekki að heilsa. Þess í stað gildir sú lausn aðeins fyrir sitjandi viðburði þar sem ekki eru fjarlægðarmörk.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×