Erlent

Biður fólk um að koma vinsamlegast ekki til Havaí

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ekki koma til Havaí, biðlar Ige.
Ekki koma til Havaí, biðlar Ige. AP/Marco Garcia

Ólíkt stjórnvöldum á Íslandi og víðsvegar annars staðar í heiminum hefur ríkisstjóri Havaí biðlað til ferðamanna um að koma vinsamlegast ekki til eyjanna eins og sakir standa.

Ferðalög til Havaí hafa ekki verið bönnuð en David Ige sagði á mánudag að þau væru áhættusöm. „Þetta er ekki góður tími til að heimsækja eyjarnar,“ sagði hann.

Hið skæða Delta afbrigði kórónuveirunnar hefur farið eins og eldur í sinu um eyjarnar. Smitum hefur fjölgað um 36 prósent síðustu tvær vikur og spítalainnlögnum um 78 prósent.

Í fyrra gripu yfirvöld til þess ráðs að krefjast þess að ferðamenn sættu sóttkví, sem fækkaði mjög komum til eyjanna. Nú hefur aðgengi að bílaleigubílum verið takmarkað og fjöldatakmarkanir eru í gildi á veitingastöðum.

Aðeins tíu mega koma saman innandyra og 25 utandyra.

„Í mars á síðasta ári, þegar ég bað ferðalanga fyrst að fresta því að heimsækja eyjarnar, fækkaði ferðamönnum um 60 prósent,“ sagði Ige. Í kjölfarið hefðu fyrrnefndar reglur um sóttkví tekið gildi og þá hefði fækkunin náð 99,5 prósentum.

Ríkisstjórinn hvatti fólk einnig til að þiggja bólusetningu en þegar hafa 62 prósent íbúa Havaí verið fullbólusett.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.