Fótbolti

Sama sagan hjá Skyttunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang gæti verið á förum frá Norður-Lundúnum.
Pierre-Emerick Aubameyang gæti verið á förum frá Norður-Lundúnum. Getty/Marc Atkins

Breskir fjölmiðlar greina frá því að Gaboninn Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal, sé til sölu. Stjórnendur liðsins hyggist losa hann af launaskrá áður en yfirstandandi félagsskiptagluggi lokar eftir rúma viku.

Aubameyang er 32 ára gamall og gekk í raðir Skyttanna í janúar 2018 er hann var keyptur frá Borussia Dortmund fyrir 56 milljónir punda. Hann skoraði tíu mörk í 13 leikjum á sinni fyrstu leiktíð og fylgdi því eftir með 22 deildarmörkum næstu tvö tímabil þar á eftir þar sem hann deildi gullskó deildarinnar tímabilið 2018 til 2019.

Hann var orðaður við brottför frá félaginu í fyrrahaust þar sem samningur hans var við að renna út í sumar. Stjórnarmenn liðsins lögðu mikla áherslu á að halda framherjanum og skrifaði hann undir nýjan þriggja ára samning í september í fyrra, sem rennur út sumarið 2023.

Samningurinn veitir honum 350 þúsund pund í vikulaun en Aubameyang átti sitt versta tímabil fyrir félagið á síðustu leiktíð eftir að gengið var frá samningnum. Hann skoraði aðeins tíu mörk í deild og hefur sætt gagnrýni fyrir frammistöðu sína.

Á einu ári hefur hann því farið úr því að vera ómissandi lykilmaður í að fara á sölulista. Það minnir óneitanlega á sögu Þjóðverjans Mesut Özil hjá Arsenal. Sá átti sex mánuði eftir af samningi sínum þegar Arsenal gaf honum nýjan samning í janúar 2018 sem tvöfaldaði laun hans í svipaða vikulega upphæð og Aubameyang fær í dag.

Özil varð að aukaleikara hjá félaginu eftir það og reyndi Arsenal ítrekað að selja hann. Það gekk illa þar sem sá þýski hafði lítinn áhuga á að sleppa frá sér gríðarháum launapakkanum. Hann fór loks til Fenebahce í Tyrklandi í janúar á þessu ári eftir að hafa verið utan úrvalsdeildarhóps Arsenal í hálft ár að telja peninga.

Áhugavert verður að sjá hvort Arsenal gangi betur að losa sig við Aubameyang en Barcelona er sagt hafa áhuga á framherjanum. Hvort skuldum vafið Katalóníuliðið hafi einhver tök á að uppfylla launakröfur hans er svo önnur saga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×