Innlent

Ekki stefnan að selja moltu úr Gaju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Borgarstórn Reykjavíkur fundar.
Borgarstórn Reykjavíkur fundar. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Stjórnarformaður Sorpu hafnar því að ný gas- og jarðgerðarstöð borgi sig ekki. Kostnaður við gerð hennar hafi farið fram úr áætlunum en hún borgi sig margfalt umhverfislega séð.

Undanfarin ár hefur Sorpa verið harðlega gagnrýnd, til dæmis vegna mikils halla í rekstri og ósamræmi í sorphirðu svo fátt eitt sé nefnt. Meðal þess sem einna helst hefur verið gagnrýnt er Gaja, ný gas- og jarðgerðarstöð. Afurðin úr henni, moltan, sé ekki nógu hrein.

Líf Magneudóttir, stjórnarformaður Sorpu, sagði í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að það sé alveg rétt en Gaja sé enn á tilraunastigi.

„Nú hefur verið dálítið rætt um það að afurðin úr Gaju, moltan, sé ekki nógu hrein. enda erum við enn bara í tilraunafasa, við þurfum að prufukeyra þetta,“ segir Líf.

Það sé vegna þess að sérsafna þurfi lífrænum úrgangi svo hann smitist ekki af öðru sorpi. Þannig sé hægt að búa til moltu sem sé næringarrík og hægt sé að nýta með fagaðilum. Hún segir ekki standa til að selja moltuna þrátt fyrir umræðu um það í borginni.

„Það stendur ekki til að selja þessa moltu heldur nýta hana með fagaðilum í ýmsa uppbyggingu, landmótun og gróðursetningu og þess háttar. Auðvitað erum við ekkert að fara út með óhreina moltu. við þurfum auðvitað að fá leyfi fyrir því að hún sé í lagi til þess að fara út með næringarríka moltu.“

Hún segir Gaju aðeins brotabrot af því sem verið sé að gera á höfuðborgarsvæðinu í innleiðingu hringrásarhagkerfis. Stöðin kosti þó 5,4 milljarða.

„Það er auðvitað kostnaður sem hefur farið fram úr og ég er ekkert feimin við að viðurkenna það, eðli málsins samkvæmt. en umhverfislegur ávinningur er líka gríðarlegur þannig ða í umhverfislegu tilliti á eftir að borga sig mjög hratt upp.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×