Innlent

Biðst afsökunar á að hafa brotið reglu um grímuskyldu

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Katrín Jakobsdóttir segir að hana hafi misminnt hvernig reglurnar væru á íþróttaleikjum utandyra.
Katrín Jakobsdóttir segir að hana hafi misminnt hvernig reglurnar væru á íþróttaleikjum utandyra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist hafa gert mistök sem henni þyki mjög leiðinlegt. Katrín var ekki með grímu á Meistaravöllum í gær þar sem hún fylgdist með KR bursta Víking 6-0 í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu.

Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri Fótbolta.net, vakti athygli á því á Twitter í morgun að forsætisráðherra hefði verið án grímu á vellinum.

„Þegar reglurnar gilda um suma,“ skrifaði Hafliði á Twitter og vísaði í textalýsingu Fótbolta.net frá leiknum. Hafliði og fleiri fótboltaáhugamenn hafa verið afar gagnrýnir á sóttvarnaraðgerðir í tengslum við knattspyrnuleiki þar sem 200 mega vera í hólfi, veitingasala er ekki heimiluð og allir þurfa að bera grímu.

DV skrifaði frétt upp úr færslu Hafliða í morgun. Katrín segir það rétt að hún hafi ekki verið með grímu á leiknum.

„Já, þetta er rétt. Mér þykir þetta mjög leiðinlegt,“ segir Katrín.

„Svo virðist sem ég hafi brotið reglur sem ég áttaði mig ekki á, þar sem leikurinn var utandyra og fjarlægðartakmörk uppfyllt. Meginreglan um grímuskyldu er að maður skuli bera grímu ef ekki tekst að fylgja fjarlægðarmörkum,“ segir Katrín.

Ég er líka bara mannleg

„Það voru mjög fáir gestir á þessum leik, sem er miður því hann var góður. Mig misminnti og taldi að íþróttaviðburðir utandyra þar sem fjarlægðartakmörk væru uppfyllt væru ekki með grímuskyldu eins og íþróttaviðburðir innandyra. Mér þykir það mjög leiðinilegt að ég hafi þannig gerst sek um brot á reglum.“

Hana hafi hreinlega misminnt.

„Því auðvitað á ég að fylgja reglum eins og aðrir,“ segir forsætisráðherra.

„Ég legg mig fram við að fylgja reglum en ég er líka bara mannleg. Maður getur gert mistök.“

Viðtalið við Katrínu má sjá í spilaranum að ofan

Katrín birti þessa mynd af KR-vellinum í hringrás sinni á Instagram í gærkvöldi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×