Innlent

Ítalskur dul­málssér­fræðingur grefur eftir „hinum heilaga kaleik“ við Skip­holts­krók

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Hinn heilagi kaleikur“ er það mál kallað sem Kristur ku hafa drukkið úr þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíð sína.
„Hinn heilagi kaleikur“ er það mál kallað sem Kristur ku hafa drukkið úr þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíð sína.

Enn leita menn að hinum heilaga kaleik á Íslandi, nú síðast við Skipholtskrók, þar sem grafin var fjögurra metra djúp hola án árangurs. „Niðurstaðan var neikvæð, það var engar vísbendingar að finna þarna,“ segir Þórarinn Þórarinsson arkitekt.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu en þar segir meðal annars að rannsóknarleiðangur sumarsins hafi verið farinn undir forystu Þórarins og hins ítalska Giancarlo Gianazza, sem er sannfærður um að kaleikinn sé að finna á Íslandi.

Gianazza, sem er verkfræðingur og dulmálssérfræðingur, byggir kenningu sína á vísbendingum í málverkum og Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante. Hann telur musterisriddara hafa komið hingað til lands í byrjun 13. aldar og að þeir hafi fengið aðstoð hjá Snorra Sturlusyni við að fela kaleikinn og aðra dýrgripi.

Að því er fram kemur í Morgunblaðinu var leiðangurinn stuttur að þessu sinni en leit Gianazza hófst árið 2004 og hefur hann ekki í hyggju að gefast upp. „Svarið er hvergi skrifað nema bara í jörðinni,“ segir Þórarinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×