Innlent

Hug­myndir Þór­ólfs ekki til­lögur sem beri að sam­þykkja eða hafna

Eiður Þór Árnason skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vill fara hægt í sakirnar.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vill fara hægt í sakirnar. Vísir

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst ekki taka afstöðu til þess hvort 200 manna samkomubann verði áfram við lýði næstu mánuði og misseri.

Nýtt minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um fram­tíðar­fyrir­komu­lag sótt­varna á Ís­landi var afhent fjölmiðlum í dag. Þar leggur Þórólfur til að 200 manna samkomubann og eins metra regla muni gilda næstu mánuðina hið minnsta, og að innanlandsaðgerðum verði ekki aflétt á meðan Covid-19 geisar enn í heiminum.

Vilja taka eitt skref í einu

Svandís sat fyrir svörum um framtíð sóttvarnaaðgerða í Pallborðinu á Vísi í dag ásamt Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Aðspurð um hvort 200 manna samkomubann verði raunin næstu misseri sagði Svandís að minnisblaðið væri bara eitt af þeim gögnum sem ríkisstjórnin væri með til skoðunar á meðan hún ræðir framtíðarfyrirkomulag takmarkana.

„Við erum ekki að taka afstöðu til þess á þessum tímapunkti. Núna erum við með 200 manna samkomubann og næsta skref er að spyrja okkur hvernig við ætlum að ljúka þessari bylgju. Þessar tillögur Þórólfs snúast um það hvernig við ætlum að fara inn í lengri framtíð en ekki hvernig við ætlum að stemma stigu við akkúrat þessari bylgju sem við erum að glíma við í dag.“

„Hann er að senda mér þetta sem sitt innlegg til lengri framtíðar. Þannig að þessar tillögur eru ekki til þess að afgreiða þær með samþykkt eða synjun akkúrat á þessum tímapunkti heldur miklu frekar til þess að þær séu partur af samtalinu,“ sagði Svandís jafnframt um minnisblaðið.

Verði að fylgja sóttvarnalögum

Núgildandi innanlandstakmarkanir gilda til og með 27. ágúst en Svandís leggur áherslu á að um sé að ræða óvenjulegt minnisblað sem verði ekki lagt til grundvallar næstu aðgerðum. 

„Eins og málin liggja þá sendir sóttvarnarlæknir mér tillögur sem lúta að næstu aðgerðum á grundvelli sóttvarnalaga en þarna er hann að meira að koma með tillögur sínar um framtíðarsýn inn í næstu mánuði og misseri.“

Samkvæmt lögum verði stjórnvöld ávallt að taka ákvarðanir sem eru byggðar á þeirri lýðheilsuógn sem blasi við á hverjum tíma. 

„Á grundvelli sóttvarnalaga getum við ekki sett einhverjar takmarkanir inn í mánuði, misseri og ég tala nú ekki um lengri tíma. En hins vegar þurfa stjórnvöld og samfélagið að stilla saman strengi um það hvernig við sjáum þetta fyrir okkur. Er möguleiki að partur af þeirri framtíðarsýn sé að vera með takmarkanir af þessu tagi? Mér finnst það vera eitt að því sem við þurfum að ræða um.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddi minnisblaðið í þættinum Pallborðið á Vísi í dag. Þáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Nýtt minnis­blað: Svona sér Þór­ólfur fyrir sér fram­tíðina

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir telur ó­lík­legt að hægt verði að af­létta tak­mörkunum innan­lands á meðan far­aldurinn geisar í heiminum. Þetta segir hann í minnis­blaði sínu til Svan­dísar Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra um fram­tíðar­fyrir­komu­lag sótt­varna á Ís­landi vegna Co­vid-19.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.