Erlent

Face­book útilokar Tali­bana frá miðlum sínum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Talibanar hafa tekið völdin í Afganistan, mörgum íbúum landsins til mikillar skelfingar.
Talibanar hafa tekið völdin í Afganistan, mörgum íbúum landsins til mikillar skelfingar. (AP Photo/Rahmat Gul

Samfélagsmiðlarisinn Facebook kveðst hafa útilokað Talibana og allt efni þeim til stuðnings á miðlum sínum. Facebook álíti Talibana vera hryðjuverkasamtök.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmönnum fyrirtækisins að hópur afganskra sérfræðinga hefði verið fenginn til þess að fylgjast með og fjarlægja allt efni tengt Talibönum, sem hafa á síðustu árum verið duglegir að miðla efni og vekja athygli á sér á samfélagsmiðlum.

„Talibanar eru hryðjuverkasamtök í skilningi bandarískra laga og við höfum útilokað þá á grundvelli stefnu okkar um hættuleg samtök. Þetta þýðir að við fjarlægjum reikninga sem haldið er úti af eða fyrir hönd Talibana, og bönnum stuðning og framsetningu á þeim,“ hefur BBC eftir fulltrúa Facebook.

Talibanabannið mun einnig gilda á Instagram og WhatsApp, öðrum samskiptamiðlum í eigu Facebook.

BBC segir þó frá því að fréttir frá Afganistan sýni fram á að Talibanar noti einmitt WhatsApp til þess að eiga í samskiptum en fulltrúar Facebook segja fyrirtækið munu bregðast við, komi í ljóst að það sé raunin.

Talibanar hafa verið í stórsókn í Afganistan á undanförnum dögum og tekið hverja borgina á fætur annarri. Í fyrradag féll höfuðborgin Kabúl í þeirra hendur, án nokkurar raunverulegrar mótspyrnu frá afganska stjórnarhernum.

Asraf Ghani, forseti landsins, flúði landið en til stóð að hann yrði viðstaddur viðræður um „friðsamleg valdaskipti“ frá ríkisstjórninni til Talibana. Fjöldi fólks hefur nú flúið eða reynt að flýja Afganistan, af ótta við ofbeldi og ofríki af hendi Talibana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×