Erlent

Forstjóri sögufrægrar Formúlu 1-brautar myrtur

Kjartan Kjartansson skrifar
Lewis Hamilton þeysist í gegnum Eau Rouge-beygjuna á Spa-Francorchamps í Belgíu. Forstjóri brautarinnar fannst myrtur í fyrrinótt.
Lewis Hamilton þeysist í gegnum Eau Rouge-beygjuna á Spa-Francorchamps í Belgíu. Forstjóri brautarinnar fannst myrtur í fyrrinótt. Vísir/EPA

Nathalie Maillet, forstjóri Spa-Francorchamps kappaktursbrautarinnar í Belgíu, fannst látin á heimili sínu í gær. Svo virðist sem að eiginmaður hennar hafi skotið hana og aðra konu til bana áður en hann beindi byssunni að sjálfum sér.

Saksóknarar í Lúxemborg, þar sem Maillet bjó, sögðu að lík tveggja kvenna og eins karlmanns hafi fundist í húsinu skömmu eftir miðnætti aðfararnótt sunnudags. Fyrirtækið sem rekur Spa-Francorchamps staðfesti lát hennar í yfirlýsingu í gær, að því er segir í frétt Motorsport.com.

Maillet hafði verið forstjóri brautarinnar frá árinu 2016 og undir stjórn hennar var ráðist í töluverðar endurbætur á brautinni til að auka öryggi og bæta aðstöðuna. Dauða hennar bar að kvöldið áður en lokaáfangi Ypres-rallsins á heimsmótaröðinni í ralli var haldinn á Spa-brautinni.

Næsti kappakstur á Formúlu 1-mótaröðinni verður haldinn á Spa í lok þessa mánaðar. Hún sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hún harmaði dauða Maillet og sendi fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.

Spa-Francorchamps er ein sögufrægasta brautin sem keppt er á í Formúlu 1. Þar hafa verið haldnar keppnir allt frá 3. áratug síðustu aldar. Formúla 1 hefur keppt á núverandi útgáfu brautarinnar sem liggur um Ardennes-skóg frá 1985.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.