Fótbolti

Hefur aldrei séð aðra eins syrpu af drauma vörslum í einum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jonathan Klinsmann átti magnaðan leik um helgina.
Jonathan Klinsmann átti magnaðan leik um helgina. Michael Janosz/Getty Images

Jonathan Klinsmann, markvörður Los Angeles Galaxy, átti rosalega frammistöðu í 1-0 sigri Galaxy gegn Minnesota United um liðna helgi. Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður Íslands undanfarin ár, hefur varla séð annað eins.

Á Twitter-síðu LA Galaxy má sjá allar vörslur hins 24 ára gamla Klinsmann í leiknum. Það er ljóst að ef ekki hefði verið fyrir hetjulega frammistöðu hans hefði Galaxy ekki fengið stig úr leiknum og hvað þá þrjú.

Jonathan er sonur Jürgen, eins frægasta framherja sem Þýskaland hefur alið. Eftir að hafa slitið barnsskónum hjá Herthu Berlín ákvað markvörðurinn ungi að söðla um og halda til Los Angeles þar sem hann leikur nú með Galaxy.

Ljóst er að þessi frammistaða ætti að vekja athygli út fyrir landsteinana en sama hvað leikmenn Minnesota United reyndu þá komu þeir boltanum ekki framhjá þýska markverðinum og Galaxy landaði mikilvægum sigri.

Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals og íslenska landsliðsins, birti myndband Galaxy á Twitter-síðu sinni og lýsti yfir aðdáun sinni.

„Þetta er held èg svakalegasta syrpa af draumavörslum sem ég hef séð í einum leik.“

Birkir Már Sævarsson, samherji Hannesar Þórs hjá Val og íslenska landsliðinu, var þó ekki jafn hrifinn. „Skylduvörslur myndu einhverjir segja,“ skrifaði hægri bakvörðurinn.

LA Galaxy er sem stendur í 3. sæti Vesturdeildar með 35 stig. Íslendingar deildarinnar leika allir í Austurdeildinni. Arnór Ingvi Traustason með New England Revolution sem trónir á toppnum, Guðmundur Þórarinsson með New York City sem er í 2. sæti og Róbert Orri Þorkelsson með CF Montréal sem situr í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×