Innlent

Hátt í fjögur hundruð börn í sótt­kví eftir vikuna

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Að minnsta kosti þrjú hundruð börn sitja nú heima í sóttkví eftir vikuna.
Að minnsta kosti þrjú hundruð börn sitja nú heima í sóttkví eftir vikuna. Vísir/Vilhelm

Hátt í fjögur hundruð börn hafa verið send í sóttkví í þessari viku vegna leikskóla- eða frístundastarfs. Flestir leikskólar eru nýteknir til starfa á ný eftir sumarfrí. Grunnskólar hefja göngu sína á næstu dögum og má því ætla að enn fleiri börn eigi eftir að lenda í sóttkví á næstu vikum.

Smit kom nýlega upp hjá starfsmanni frístundaheimilisins Frostheima í Vesturbæ. Dóróthea Ævarsdóttir, forstöðumaður Frostheima segist hafa fengið fregnir af smitinu í gær og var tilkynning send á alla foreldra í kjölfarið.

Um fimmtíu börn sem höfðu verið á vikulöngu leikjanámskeiði í Frostheimum eru nú komin í sóttkví. Börnin eru níu og tíu ára gömul.

Þá greindist starfsmaður leikskólans Holts í Breiðholti einnig smitaður í gær. Þrjátíu börn og tíu starfsmenn voru send í sóttkví í kjölfarið.

Halldóra B. Gunnlaugsdóttir, leikskólastjóri sagði í samtali við RÚV að leikskólinn sé í tveimur aðskildum húsum þar sem enginn samgangur er á milli. Því hafi aðeins börn úr öðru húsinu þurft að fara í sóttkví.

Vísir greindi frá því fyrr í dag að öll börn af leikskólanum Álftaborg í Reykjavík hafi verið send í sóttkví eftir að starfsmaður greindist smitaður. Sá leikskóli rúmar tæplega níutíu börn.

Þá lentu 57 verðandi nemendur í fyrsta bekk í Hörðuvallaskóla í sóttkví eftir að smit greindist í sumarfrístund.

Starfsmaður leikskóla á Seltjarnarnesi greindist einnig smitaður af kórónuveirunni í vikunni og voru í kjölfarið um hundrað börn send í sóttkví.

Þá var ungbarnaleikskólanum Sólgarði í Reykjavík lokað á þriðjudaginn vegna smits sem þar kom upp. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru um fimmtíu börn í kringum eins árs aldurs í sóttkví.

Alls eru þetta tæplega fjögur hundruð börn sem hafa verið send í sóttkví. Grunnskólar hafa ekki ennþá hafið göngu sína eftir sumarfrí er því ekki ólíklegt að sóttkví barna eigi eftir að færast í aukana þegar skólastarf hefst af fullum krafti að nýju.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að upplýsingar bárust um smit í leikskólanum Sólgarði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×