Innlent

Loks búið að boða formlega til kosninga

Eiður Þór Árnason skrifar
Rúmar sex vikur eru þar til Íslendingar ganga að kjörborðinu.
Rúmar sex vikur eru þar til Íslendingar ganga að kjörborðinu. Vísir/Vilhelm

Formlega hefur verið boðað til Alþingiskosninga laugardaginn 25. september. Þetta er staðfest með forsetabréfi Guðna Th. Jóhannessonar um þingrof og almennar kosningar sem birt var á vef Stjórnartíðinda í dag.

Þing verður formlega rofið sama dag og kosningar fara fram. Verður nú fyrst heimilt að hefja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Miðað við stöðu faraldursins má ætla að fjöldi fólks í einangrun og sóttkví muni nýta sér það úrræði.

Rúmar sex vikur eru nú til kosninga en meira en ár er liðið frá því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti að stefnt yrði að því halda þær umræddan dag.

Óvanaleg tímasetning fyrir kosningar

Í forsetabréfinu kemur fram að ákvörðunin hafi verið tekin samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með vísan til kosningalaga og 24. greinar stjórnarskrárinnar. Í umræddri grein stjórnarskrárinnar er kveðið á um að forseti geti rofið Alþingi og stofnað til nýrra kosninga.

Núverandi kjörtímabil hófst að loknum kosningum 28. október 2017 og því rennur það ekki út fyrr en sama dag árið 2021. Oftast hefur verið kosið til Alþingis í lok apríl eða byrjun maí. Boðað var til kosninga árið 2017 eftir að Björt framtíð sleit óvænt ríkisstjórnarsamstarfi sínu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn þann 14. september með vísan til alvarlegs trúnaðarbrests.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×