180 vélbyssur eru í einkaeigu á Íslandi og flestar þeirra virkar. Þessu greindum við frá í kvöldfréttum í gær. Vélbyssa er annað orð yfir sjálfvirkan riffil og flokkast sem sjálfvirkt skotvopn en það eru þau vopn sem skjóta má úr röð skota með því að taka aðeins einu sinni í gikkinn.
Innflutningur á sjálfvirkum skotvopnum jókst gríðarlega árið 2020 þegar 252 slík vopn voru flutt inn til landsins en þau voru einungis nítján árið á undan. Lögregla segir þessa miklu fjölgun skýrast af auknum áhuga safnara.
Handhafar vopnanna sæta þröngum skilyrðum á grundvelli safnaraleyfis. Þeir þurfa að hafa haft skotvopnaleyfi í að minnsta kosti fimm ár og hafa yfir að ráða fullnægjandi aðstöðu til varðveislu vopnanna.
Sjö byssum stolið á síðasta ári
Dæmi eru um að ekki sé farið eftir reglum um geymslu skotvopna þó þær séu skýrar í lögum. Þær byssur sem notaðar hafa verið í ólöglegum tilgangi hér á landi voru flestar stolnar.
„Ef við tökum árið 2020 var sjö byssum stolið. Það voru ekki safnarabyssur. Þetta voru byssur hjá einstaklingum sem áttu fá skotvopn og geymdu þau ekki tryggilega,“ sagði Jónas Hafsteinsson, lögreglufulltrúi hjá leyfadeild.
Jónas segir að þessar stolnu byssur finnist yfirleitt hjá góðkunningjum lögreglunnar. Vopnalög voru sett árið 1998 og segir Jónas að þau séu í stöðugri endurskoðun innan ráðuneytisins.
„Geymslan er alveg skýr. Það á að vera læst hirsla strax við fyrstu byssu þannig að það er sjálfu sér í góðum farvegi en jú auðvitað mætti uppfæra eitt og annað.“