Innlent

Ríkis­stjórnin boðar til blaða­manna­fundar á morgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ríkisstjórnin fundar á Reykjanesskaga á morgun.
Ríkisstjórnin fundar á Reykjanesskaga á morgun. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar klukkan fjögur síðdegis á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar kemur jafnframt fram að ríkisstjórnin muni funda í Salthúsinu í Grindavík klukkan tíu á morgun.

„Ríkisstjórnin mun einnig eiga þar fund með fulltrúum sveitarfélaga innan sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Þá verður vinnufundur ríkisstjórnarinnar haldinn í Duus Safnahúsinu í Reykjanesbæ eftir hádegi. Blaðamannafundur verður þar kl. 16 þar sem farið verður yfir framgang verkefna í stjórnarsáttmála og aðgerðir til að styðja við skapandi greinar kynntar. Að blaðamannafundinum loknum eða um kl. 16.30 veita ráðherrar fjölmiðlum viðtöl,“ segir í tilkynningunni.

Óljóst hvort fjallað verði um sóttvarnaaðgerðir

Núgildandi sóttvarnatakmarkanir innanlands eru í gildi til og með föstudeginum 13. ágúst. Ekki liggur fyrir hvort framhald aðgerða eða mögulegar afléttingar verði kynntar á blaðamannafundinum á morgun.

Í samtali við fréttastofu sagðist Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, ekki geta sagt neitt um hvort breytingar yrðu kynntar á morgun. Ef svo væri þá yrði tekin ákvörðun um það á fundi ríkisstjórnarinnar.

Þó má telja næsta víst að hvort sem framhald innanlandsaðgerða verður kynnt á morgun eða ekki, verði sóttvarnamál til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar.

Næsti ríkisstjórnarfundur, á eftir þeim sem fram fer á morgun, er á dagskrá föstudaginn 13. ágúst. Það er síðasti dagurinn sem núverandi takmarkanir eru í gildi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×