Innlent

Útiguðsþjónusta í Arnarbæli í Ölfusi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frá útiguðþjjónustu í Arnarbæli í Ölfusi. Guðþjónustan í dag hefst klukkan 14:00.
Frá útiguðþjjónustu í Arnarbæli í Ölfusi. Guðþjónustan í dag hefst klukkan 14:00. Hveragerðisprestakall

Útiguðsþjónusta verður haldin í dag á fornfrægum kirkjustað og prestsetri, en það er Arnarbæli í Ölfusi. Danakonungur kom meðal annars við í Arnarbæli í heimsókn sinni til Íslands 1907.

Kirkju er fyrst getið í Arnarbæli um 1200 og síðasta kirkja þar var til 1909, eða þegar Arnarbælis- og Reykjasóknir voru sameinaðar og ný kirkja byggð á Kotströnd. Arnarbæli var prestssetur til 1942. Arnarbæli var höfuðból í Ölfusi.

„Já, þetta er ánægjulegur og fallegur dagur því í dag er hin árlega og árvissa útiguðsþjónusta í Arnarbæli, þeim forna kirkjustað hér í Ölfusinu. Þar var kirkja en fyrst var getið um kirkju þar um 1200 og þar var kirkja allt til ársins 1909 því hún var aflögð þar en byggð ný kirkja við Kotströnd, sem margir þekkja við þjóðveginn á milli Hveragerðis og Selfoss. Og þarna gisti nú konungur á ferð sinni til Íslands árið 1907 og þetta er merkilegur staður og afskaplega fallegur,“ segir Ninna Sif.

Séra Ninna Sif Svavarsdóttir sem verður með útiguðsþjónustuna í Arnarbæli í Ölfusi.Aðsend

Kirkjukór Hveragerðis - og Kotstrandarsókna leiðir safnaðarsöng í guðsþjónustu dagsins.

En hvernig verður form messunnar hjá Ninnu Sif?

„Þetta verður er nokkuð hefðbundin guðsþjónusta eins og fólk þekkir nema að hún er í þessu fallega guðshúsi, sem er sjálf náttúran og við syngjum fallega sumarsálma og heyrum góðan boðskap og biðjum saman og njótum samfélagsins við guð og menn. Það eru allir hjartanlega velkomnir. Hún er alltaf fjölmenn þessi messa á hverju ári og ég á ekki von á því að það verði nein breyting á því í ár, það eru allir hjartanlega velkomnir, það verður ekki uppselt í sæti.“

Og ætlar þú að bjóða upp á messukaffi?

„Nei, að þessu sinni ætlum við að sleppa því í ljósi ástandsins í faraldrinum að sleppa messukaffinu í ár,“ sagði Ninna Sif.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×