Innlent

„Ég hefði kannski átt að lesa bréfið yfir“

Árni Sæberg skrifar
Stefán Hrafns Hagalín er deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans
Stefán Hrafns Hagalín er deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans Vísir

Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, baðst afsökunar á bréfi sem hann sendi öllum tæplega 300 stjórnendum Landspítalans í útvarpsþættinum Vikulok á Rás 1 í morgun.

Bréfið innihélt skýr skilaboð. Öllum fyrirspurnum fjölmiðla, sama hverjum, á að vísa til Stefáns Hrafns Hagalín deildarstjóra samskiptadeildar Landspítalans.

„Ég biðst afsökunar á þessum tölvupósti og öllu í kringum þetta, þetta er afleitt hjá mér,“ segir Stefán Hrafn í Vikulokum.

Hann segir tölvupóstinn hafa verið skrifaðan í lok erfiðs vinnudags. Þá hafi hann þurft að stytta sumarfrí sitt sökum ástandsins á spítalanum. Því hafi pósturinn verið „þreytulegur.“

Pósturinn snerist ekki um ritskoðun

Hann gefur lítið fyrir ásakanir um að tölvupósturinn hafi verið tilraun til að ritskoða starfsmenn spítalans. 

„Þetta snýst alls ekki um miðlæga svörun frá spítalanum. Spítalinn teflir alltaf fram þeim sérfræðingum sem beðið er um hverju sinni, eru lausir á vakt og til í spjall og annað slíkt. Við reynum að tefla forstjóra oftast fram ef um er að ræða stefnu og stjórnun spítalans eða fjármögnun en annars svara sérfræðingar á hverju sviði, alveg hindrunarlaust og milliliðalaust,“ sagði Stefán Hrafn.

Stefán Hrafn segir að tölvupósturinn hafi verið sá fyrsti í langri keðju samskipta og að hann hafi verið útskýrður á fullnægjandi hátt. Hann telur að öllum hafi verið ljóst að ekki stæði til að ritskoða nokkurn mann innanhúss.

„Ég ætla ekki að segja að ég sé fórnarlamb einhvers misskilnings en mögulega hefði ég átt að lesa póstinn yfir áður en ég sendi hann,“ segir hann.

Hefur fengið verðskuldaðar skammir í hattinn

„Það er búið að hirta mig, þetta voru um þrjátíu eða fjörutíu fréttir í gær og í fyrradag í leiðurum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Þannig að ég er allavega búinn að fá þá hirtingu sem ég sennilega bara átti skilið og framleiddi sjálfur. Er það ekki yfirleitt þannig að holurnar sem við hrösum um eru þær sem við höfum grafið sjálf?“ segir Stefán Hrafn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×