Innlent

Kallar eftir samtali við börn um bólusetningar

Kjartan Kjartansson og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. Vísir/Stöð 2

Varaformaður þingflokks Pírata telur rétt að ræða við börn um vilja þeirra áður en mögulega verður byrjað að bólusetja 12-15 ára unglinga gegn kórónuveirunni. Það sé á ábyrgð menntamálaráðherra og stjórnvalda að hefja það samtal.

Til skoðunar hefur verið hvort rétt sé að bólusetja 12-15 ára gömul börn gegn kórónuveirunni en engin ákvörðun hefur verið tekin um það ennþá. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður þingflokks Pírata, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að mikill þrýstingur væri frá kennurum að bólusetja börn vegna uppgangs delta-afbrigðis kórónuveirunnar.

Sjálf sagðist hún þeirrar skoðunar að betra væri að flýta sér hægt á meðan málið væri ekki komið lengra. Ekki lægi fyrir mat frá sóttvarnalækni á því hvort að áhætta af bólusetningu sé minni en af því að börn veikist mögulega af Covid-19.

Kallaði hún eftir samtali við börn um bólusetningar og minnti á að Ísland á aðild að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Það þarf að eiga sér stað virkt samtal við þau. Ef það er ekki hafið, sem mér sýnist ekki, er það á ábyrgð menntamálaráðherra og stjórnvalda að hefja það samtal við börnin. Þetta snýst um bæði rétt barna til að taka sínar eigin ákvarðanir en líka forræði foreldra yfir börnum sínum. Þetta er bara mikilvægt siðferðislegt samtal sem þarf að opna núna,“ sagði Þórhildur Sunna.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagðist Valtýr Thors Stefánsson, barnalæknir, skilja áhyggjur sumra foreldra af bólusetningu barna gegn Covid-19 en að ekkert benti til þess að þær hefðu alvarlegar afleiðingar í för með sér. Hann ímyndi sér að fyrir sóttvarnayfirvöldum vaki að grípa inn í áður en faraldurinn fer frekar úr böndunum við ákvörðun um hvort að börn verða bólusett.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×