Fótbolti

Færa úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum vegna mikilla hita

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sænsku stelpurnar Amanda Ilestedt og Hanna Glas fagna sigri á heimastúlkum í Japan á Ólympíuleikunum.
Sænsku stelpurnar Amanda Ilestedt og Hanna Glas fagna sigri á heimastúlkum í Japan á Ólympíuleikunum. AP/Martin Mejia

Kanada og Svíþjóð spila til úrslita í knattspyrnukeppni kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó og þau fengu í gegn breytingar á leiktíma.

Úrslitaleikurinn átti að fara fram á morgun klukkan ellefu fyrir hádegi að staðartíma en leiknum hefur nú verið seinkað um tíu tíma.

Leikurinn fer nú fram klukkan níu að kvöldi sem er klukkan tólf að hádegi að íslenskum tíma.

Leikstaðnum var líka breytt en hann var færður frá Tókýó til Yokohama.

Hiti við völlinn var í kringum fjörutíu gráðurnar í vikunni en það er búist við því að hann verði um 36 gráður á morgun.

Bæði liðin óskuðu eftir því að leikurinn yrði spilaður seinna til að forðast hádegishitann og við því var orðið.

„Þetta er ekki bara góð ákvörðun þetta er virkilega, virkilega, virkilega góð ákvörðun,“ sagði Peter Gerhardsson, þjálfari sænska liðsins.

Hvorki Kanada né Svíþjóð hefur orðið Ólympíumeistari kvenna í fótbolta. Svíþjóð spilaði til úrslita á síðustu leikum en tapaði þá fyrir Þýskalandi. Þetta er fyrsti úrslitaleikur Kanada en liðið hefur fengið bronsverðlaun á síðustu tveimur Ólympíuleikum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.