Fótbolti

Vilja leyfa auglýsingar frá veðmálafyrirtækjum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Internazionale varð ítalskur meistari á síðustu leiktíð.
Internazionale varð ítalskur meistari á síðustu leiktíð. Getty/Marco Luzzani

Ítalska knattspyrnusambandið, FIGC, hefur farið fram á það við ítölsk stjórnvöld að leyfa auglýsingar frá veðmálafyrirtækjum innan fótboltans þar í landi. Það geti hjálpað ítölskum félagsliðum að vinna sig út úr fjárhagsvandræðum sem kórónuveirufaraldurinn hafi valdið.

Ítölsk stjórnvöld settu á blátt bann við hvers kyns auglýsingum frá veðmálafyrirtækjum í janúar 2019, en þá máttu styrktarsamningar sem þá voru í gildi renna sitt skeið.

FIGC hefur nú beðið stjórnvöld um að losa um bannið tímabundið, og leyfa slíkar auglýsingar í fótbolta, til að ýta undir frekari veltu hjá fótboltaliðum sem eru mörg illa stödd eftir fjárhagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins.

Sambandið lagði til að banninu yrði aflétt í að minnsta kosti tvö ár, fram til sumars 2023, svo fótboltinn gæti jafnað sig á fjárhagslega áfallinu.

Á meðal þess sem sambandið leggur til er að búa til sérstakan sjóð, sem í myndi renna 1% allra veðmálafjárhæða á Ítalíu, sem sambandið myndi svo úthluta til að fjármagna fótboltatengt verkefni víðsvegar um landið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.