Fótbolti

Sjáðu markið sem Kristian Nökkvi skoraði fyrir Ajax gegn Leeds

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristian Nökkvi Hlynsson er farinn að banka á dyrnar í aðalliði Ajax.
Kristian Nökkvi Hlynsson er farinn að banka á dyrnar í aðalliði Ajax. getty/NESImages

Kristian Nökkvi Hlynsson skoraði fyrir aðallið Ajax í 3-1 sigri á Leeds United í æfingaleik í dag.

Kristian kom inn á sem varamaður í hálfleik og var ekki lengi að láta að sér kveða. Á 49. mínútu fékk hann boltann rétt fyrir innan vítateig, tók við honum og skoraði með góðu skoti og kom Ajax í 3-0. Markið má sjá hér fyrir neðan.

Þetta var annað mark Kristians fyrir Ajax á undirbúningstímabilinu en hann skoraði einnig í 6-0 sigri á HFC í byrjun júlí.

Hann hefur spilað með varaliði Ajax í hollensku B-deildinni og æft með aðalliðinu. Kristian kom til Ajax frá Breiðabliki í janúar í fyrra.

Lið Ajax í dag var aðallega skipað ungum leikmönnum en hjá Leeds voru öllu þekktari nöfn á blaði. Má þar meðal annars nefna Kalvin Phillips sem var í stóru hlutverki hjá enska landsliðinu sem fór í úrslit á EM.

Kristian, sem er sautján ára, þykir afar mikið efni og skemmst er að minnast þess þegar Ronald de Boer, þjálfari hjá Ajax og fyrrverandi landsliðsmaður Hollands, kallaði hann hinn íslenska Kevin De Bruyne.

Ajax varð hollenskur meistari á síðasta tímabili í 35. sinn. Ajax mætir NEC Nijmegen í 1. umferð hollensku úrvalsdeildarinnar 14. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×