Fótbolti

Breiðablik mætir Aberdeen á Laugardalsvelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik sló Austria Vín út í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Breiðablik sló Austria Vín út í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. vísir/Hulda Margrét

Fyrri leikur Breiðabliks og Aberdeen í 3. umferð forkeppni forkeppni Sambandsdeildar Evrópu fer fram á Laugardalsvelli þar sem Kópavogsvöllur stenst ekki kröfur UEFA.

Blikar hafa unnið báða heimaleiki sína í Sambandsdeildinni til þessa, Racing frá Lúxemborg, 2-0, og Austria Vín, 2-1.

Á fimmtudaginn verða Blikar hins vegar ekki á Kópavogsvellinum sínum heldur þjóðarleikvanginum, Laugardalsvelli. Þetta staðfesti Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, við Vísi í morgun.

„Það er ljóst að leikurinn verður á Laugardalsvelli,“ sagði Sigurður. Í 3. umferð Sambandsdeildarinnar þarf að leika á völlum í flokki 3 samkvæmt reglum UEFA.

„Laugardalsvöllur er eini völlurinn á Íslandi í flokki 3 en Kópavogsvöllur og margir aðrir vellir eru í flokki 2.“

Síðast þegar Breiðablik komst í 3. umferð í forkeppni Evrópukeppni lék liðið einnig á Laugardalsvelli. Sumarið 2013 tók Breiðablik á móti Aktobe frá Kasakstan á Laugardalsvelli og vann 1-0 sigur. Staðan í einvíginu var því samanlagt 1-1 en Aktobe vann í vítaspyrnukeppni.

Seinni leikur Breiðabliks og Aberdeen fer fram á Pittodrie vellinum í Aberdeen í Skotlandi fimmtudaginn 12. ágúst. Sigurvegarinn í einvíginu mætir Limassol frá Kýpur eða Qarabag frá Aserbaídsjan í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Breiðablik vann 4-0 sigur á Víkingi í fyrsta leik 15. umferðar Pepsi Max-deildar karla í gær. Með honum komust Blikar upp í 3. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×