Fótbolti

Sturlaðist á hliðarlínunni og var rekinn í sturtu í æfingaleik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Unai Emery.
Unai Emery. vísir/getty

Það sauð allt upp úr á hliðarlínunni þegar Marseille og Villarreal mættust í æfingaleik á laugardagskvöld.

Í kjölfar þess að Juan Foyth, varnarmaður Villarreal, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt missti Unai Emery, stjóri Villarreal, algjörlega stjórn á skapi sínu.

Fékk hann því einnig að líta rauða spjaldið hjá dómara leiksins. Emery róaðist lítið við það og í stað þess að ganga til búningsklefa lét hann einhver vel valin orð falla í átt að Jorge Sampaoli, stjóra Marseille.

Sampaoli tók ekkert voðalega vel í aðfinnslur Emery eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi og þurftu aðstoðarmenn Sampaoli að hafa sig alla við að stöðva yfirmann sinn í að hjóla í Emery.

Óvíst er hvaða óuppgerðu sakir þeir Emery og Sampaoli vildu leysa þarna en Sampaoli tók við spænska úrvalsdeildarliðinu Sevilla af Emery árið 2016.

Leikurinn fór annars 2-1 fyrir Marseille sem hefur leik í frönsku úrvalsdeildinni um næstu helgi. Fyrsti leikur Villarreal er gegn Chelsea um Ofurbikar Evrópu þann 11.ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×