Innlent

Síðasta myndin úr vél Johns Snorra

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þetta er ramminn úr myndbandinu sem GoPro myndavélin vill ekki spila. Þetta er eina myndefnið sem hefur tekist að ná úr vélinni eins og er.
Þetta er ramminn úr myndbandinu sem GoPro myndavélin vill ekki spila. Þetta er eina myndefnið sem hefur tekist að ná úr vélinni eins og er. Instagram/Elia Saikaly

Síðasta myndin úr GoPro-myndavél Johns Snorra Sigur­jóns­sonar, sem hann var með á sér á K2 þegar hann fórst þar í byrjun febrúar, hefur verið birt á netinu. Sajid Sadpara, sonur Ali Sadpara, sem fórst með John í leið­angrinum, náði GoPro-mynda­vélinni úr jakka Johns þegar hann fann lík göngumannanna á mánu­daginn var.

Kvik­mynda­töku­maðurinn Elia Saika­ly, sem vann að gerð heimildar­myndar um leið­angur Johns Snorra og sam­ferða­manna hans, var með í för Sajids, þegar þeir fundu lík ferða­langanna á mánu­daginn. Hann segir enn ekki sannað að þeir hafi náð toppi K2.

Í nýrri færslu sem hann birti á Insta­gram deilir hann myndinni sem náðist úr vél John Snorra og lýsir leitar­að­gerðum á fjallinu.

Myndin er rammi úr mynd­bandi sem vélin tók en því miður virðist allt annað mynd­efni vélarinnar ó­nýtt.

„Þetta er eina mynd­efnið sem við höfum ein­mitt núna. Einn stakur rammi úr mynd­bandi sem virðist skemmt en þarf frekari greiningu,“ skrifar Elia í færslunni.

Hann segir litinn á reipinu sem sést á myndinni vera mikil­vægt smá­at­riði sem geti sagt mikið um ferð þeirra. Því var nefni­lega komið fyrir af nepölsku göngu­mönnunum sem náðu toppi K2 að vetrar­lagi fyrstir manna, nokkru áður en John Snorri og sam­ferða­menn hans komust langt upp í fjallið.

„En hvar er þetta? Hversu ná­lægt toppinum? Getur GoPro 360 vélin gefið okkur upp­lýsingar um stað­setningar­hnit göngu­mannanna? Hvað fleira getur myndin sagt okkur?“ spyr Elia sig.

Ekki sannað að þeir hafi náð toppinum

Hann segir það skrýtið að ekki sé hægt að spila mynd­band vélarinnar. Enn sé ekki sannað að þeir hafi náð toppi K2 áður en þeir létust:

„Okkar vinna hér heldur á­fram. Við drögum ekki neinar á­lyktanir strax á meðan við reynum að púsla myndinni af ferð þeirra saman og leita vís­bendinga um að þeir hafi komist á topp K2 að vetrar­lagi.“

John Snorri í mestri hæð

Þre­menningarnir fundust á fjallinu á mánu­dag, sem fyrr segir. Elia lýsir því hvernig ein­stakur vilja­styrkur Sajids sem var stað­ráðinn í að finna lík föður síns, hafi keyrt leitar­ferð þeirra á­fram við virki­lega hættu­legar að­stæður.

„Brekkan sem þeir fundust í var í um 75 til 80 gráðu halla. Eitt rangt skref og við hefðum dáið. Sajid eyddi meira en fimm­tán mínútum í að leita á klæðnaði Johns eftir mikil­vægum búnaði þeirra. Á einum tíma­punkti tók hann hníf sinn út og byrjaði að skera á klæðnað hans,“ skrifa Elia.

„Þið getið ekki í­myndað ykkur hversu erfitt það er að leita á og færa lík mann­eskju sem hefur látist í meira en 8000 metra hæð. Ég tók það upp þegar fjaðrir flugu niður af fjalls­hlíðinni þegar hann náði GoPro vélinni loks úr klæðnaði hans.“

Elia segir að mennirnir hafi greini­lega verið á niður­leið þegar þeir fundust. John Snorri var þá aftastur, í mestri hæð, en hann fannst festur í öryggis­línur sem Sjerpar hafa komið fyrir á leiðinni á toppinn. Nokkuð skammt frá honum var Ali Sadpara og Juan Pablo fannst síðar mun neðar en þeir, nær búðum fjögur. Talið er að þeir hafi króknað úr kulda eftir að stormur skall á í fjallinu.


Tengdar fréttir

Tíminn með John Snorra stuttur en risti djúpt

Elia Saikaly, kanadískur kvikmyndagerðarmaður sem vinnur að gerð heimildarmyndar um leiðangur Johns Snorra Sigurjónssonar og samferðamanna hans á K2, fjallar um kynni sín af John Snorra í ítarlegri færslu á Instagram í dag. Hann segir John Snorra hugrakkan og góðhjartaðan mann, sem framar öllu öðru elski fjölskyldu sína.

Telja John Snorra hafa náð toppi K2

Leitar­menn sem fundu lík John Snorra Sigur­jóns­sonar og Ali Sadpara fyrir ofan fjórðu búðir á K2 á mánu­dag telja að þeir fé­lagar hafi náð toppi fjallsins áður en þeir létust. Frá þessu er greint á minningar­reikningi Sadpara á Twitter.

Fjölskylda Johns Snorra þakkar hlýhug

Fjölskylda Johns Snorra segir að ákveðinni óvissu hafi nú verið eytt um afdrif þeirra Johns Snorra Sigurjónssonar, Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr á fjallinu K2 þann fimmta febrúar síðastliðinn. Leitin að þeim hefur nú borið árangur þar sem líkamsleifar þeirra fundust í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×