Enski boltinn

Grunur um hópsmit innan Manchester United liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ekki er vitað hvaða leikmenn Manchester United eru smitaðir en enska úrvalsdeildin hefst eftir tvær vikur.
Ekki er vitað hvaða leikmenn Manchester United eru smitaðir en enska úrvalsdeildin hefst eftir tvær vikur. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester United mun ekki spila æfingaleik á móti Preston á laugardaginn því félagið varð að fresta leiknum af öryggisráðstöfunum.

Ástæðan er sú að nokkrir leikmenn aðalliðs United virðast vera komnir með kórónuveiruna.

United átti að spila við b-deildarliðið á Deepdale vellinum um helgina en vegna hópsmitsins þá verður ekkert að honum.

Manchester United gaf það út í gærkvöldi að lítill hópur leikmannahópsins væri grunaður um að vera smitaður af kórónuveirunni en í hópi smitaðra eru bæði leikmenn og þjálfarar.

United tekur flýtipróf til að fylgjast með því hvort leikmenn séu smitaðir eða ekki en eftir að nokkrir greindust jákvæðir þar þá voru þeir sendir í PCR próf.

Leikmennirnir sem eru grunaðir um að vera smitaðir voru líka strax sendir í einangrun.

Preson fékk að vita af vandamálum United um kvöldmatarleytið í gær og það er ekki hægt að spila leikinn seinna í haust því enska b-deildin hefst eftir aðeins átta daga. Það er lengra í ensku úrvalsdeildina sem hefst eftir fjórtán daga.

Þetta þýðir jafnframt að Manchester United á nú bara eftir einn leik á undirbúningstímabilinu en sá leikur er á móti Everton á Old Trafford 7. ágúst næstkomandi. United hefur leikið þrjá æfingaleiki en liðið vann Derby County, tapaði fyrir QPR og gerði jafntefli við Brentford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×