Fótbolti

Íslendingaliðin áfram - Hákon lék sinn fyrsta leik fyrir FCK

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hákon Arnar spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik á ferlinum í kvöld.
Hákon Arnar spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik á ferlinum í kvöld. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Íslendingaliðin Molde og Hammarby komust bæði áfram í Sambandsdeild Evrópu í kvöld. 18 ára Íslendingur spilaði þá sinn fyrsta leik fyrir FC Kaupmannahöfn er danska liðið fór sömuleiðis áfram í keppninni.

Molde vann fyrri leik gegn Servette frá Sviss 3-0 í Noregi. Servette mætti hins vegar ákveðnara til leiks í kvöld og komst yfir á 18. mínútu með marki Frakkans Moussa Diallo. Servette var 1-0 yfir í leikhléi en Miroslav Stevanovic, leikmaður liðsins, fékk að líta rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks.

Þrátt fyrir að leika 10 gegn ellefu komst Servette 2-0 yfir á 58. mínútu með marki Grejohn Kyei og staðan í einvíginu því orðin 3-2 fyrir Molde. Skömmu síðar kom Björn Bergmann Sigurðarson inn af bekknum fyrir Molde og hjálpaði sínum mönnum að ekki færi verr.

Servette vann leikinn 2-0, sem dugði ekki til, Molde vann einvígið 3-2 og er komið í næstu umferð. Þar mætir liðið Trabzonspor frá Tyrklandi.

Jón Guðni Fjóluson var í byrjunarliði Hammarby sem vann 1-0 sigur á Maribor í Slóveníu eftir mark Davids Accam snemma leiks. Hammarby hafði unnið fyrri leikinn 3-1 og vann einvígið því samanlagt 4-1.

Hammarby mætir Cukaricki frá Serbíu í næstu umferð keppninnar.

Hinn 18 ára gamli Hákon Arnar Haraldsson, bróðir Tryggva Hrafns Haraldssonar, leikmanns Íslandsmeistara Vals, spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir FC Kaupmannahöfn. Hann spilaði síðasta korterið í 5-0 útisigri á Torpedo Zhodino og nældi sér í gult spjald á 83. mínútu.

FCK vann einvígið samanlagt 9-1 og mætir Lokomotiv Plovdiv frá Búlgaríu í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×