Fótbolti

West Ham fær heimsmeistara í markið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Areola mun veita Lukasz Fabianski samkeppni á komandi leiktíð.
Areola mun veita Lukasz Fabianski samkeppni á komandi leiktíð. John Walton/PA Images via Getty Images

Lundúnafélagið West Ham United hefur gengið frá lánssamningi við franska markvörðinn Alphonse Areola frá Paris Saint-Germain í Frakklandi. Hann mun leika með liðinu á komandi leiktíð.

Areola þekkir til í bresku höfuðborginni eftir að hafa varið mark Fulham á síðustu leiktíð, þá einnig á láni frá PSG. Hann lék 36 leiki fyrir þá hvítklæddu en gat ekki komið í veg fyrir fall þeirra úr ensku úrvalsdeildinni.

Hann fær nú annað tækifæri til að sanna sig og mun veita Pólverjanum Lukasz Fabianski samkeppni um markmannsstöðuna hjá West Ham. Fabianski er 36 ára gamall og hefur leikið 98 deildarleiki fyrir liðið frá því að hann samdi við West Ham sumarið 2018.

Areola hefur verið á mála hjá Paris Saint-Germain frá barnsaldri en hefur átt í vandræðum með að festa sig þar í sessi. Hann hefur leikið 75 leiki fyrir félagið, flesta milli 2017 og 2019. Síðan þá hefur hann verið á láni hjá Real Madrid leiktíðina 2019-20 og hjá Fulham í fyrra. Þá hefur hann einnig leikið eina leiktíð á láni hjá Villarreal á Spáni og með Lens og Bastia í heimalandinu.

Ekki er pláss fyrir hann í hópi PSG sem samdi nýverið við Evrópumeistarann Gianluigi Donnarumma sem rann út á samningi hjá AC Milan. Keylor Navas og Sergio Rico eru einnig á mála hjá félaginu.

Areola hefur leikið þrjá landsleiki fyrir Frakkland og var hluti af hópnum sem vann HM í Rússlandi sumarið 2018. Hann var hins vegar ekki í landsliðshópnum sem fór á EM í sumar.

West Ham átti glimrandi tímabil í fyrra undir stjórn Skotans David Moyes er liðið hafnaði í 6. sæti deildarinnar og mun það leika í Evrópudeildinni á komandi leiktíð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×