Innlent

Höfnuðu á ljósastaur og sökuðu hvor annan um að hafa ekið bílnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þeir sem vistaðir voru í fangaklefa í nótt fara væntanlega í skýrslutöku þegar rennur af þeim í dag.
Þeir sem vistaðir voru í fangaklefa í nótt fara væntanlega í skýrslutöku þegar rennur af þeim í dag. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti tveimur tilkynningum um innbrot í póstnúmeri 105 í Reykjavík með fjórtán mínútna millibili í gærkvöldi. Þá voru ökutæki stöðvuð víða á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt þar sem grunur er um að ökumaður hafi verið undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.

Venju samkvæmt greinir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá verkefnum sem sinnt var í gærkvöldi og nótt í fréttaskeyti til fjölmiðla í morgunsárið. Af átján verkefnum sem lögreglan segir frá sneru tíu þeirra að grun um akstri undir áhrifum.

Tilkynnt var um innbrot á heimili í hverfi 105 um hálf átta leytið í gærkvöldi og stundarfjórðungi síðar í bifreið í sama hverfi. Ekki kemur fram hvort sömu aðilar hafi tilkynnt innbrotið eða hvort grunur sé um að sami aðili hafi verið þar á ferð.

Á tólfta tímanum var tilkynnt um slagsmál í miðbæ Reykjavíkur og á fimmta tímanum í nótt barst lögreglu tilkynning um innbrot á ónefndan leikskóla vestan Elliðaár. Einstaklingur var til vandræða í strætó í póstnúmeri 113 á níunda tímanum í gærkvöldi.

Þá sinnti, samkvæmt fréttaskeyti lögreglu, lögreglan í Kópavogi og Breiðholti útkalli klukkan 20:28 í Mosfellsbæ þar sem bíl hafði verið ekið á ljósastaur. Tveir einstaklingar voru í bifreiðinni og sökuðu þeir hvor annan um að hafa ekið. Báðir einstaklingarnir eru grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna. Báðir handteknir og vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Tilkynnt var um innbrot í geymslu í fjölbýlishúsi í Kópavogi á ellefta tímanum í gærkvöldi. Þá sinnti lögreglan á Vínlandsleið tilkynningu um hópslagsmál í Mosfellsbæ á öðrum tímanum í nótt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.