Fótbolti

Tvö íslensk töp í Sambandsdeildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF í kvöld.
Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF í kvöld. Ulrik Pedersen/NurPhoto via Getty Images

Það voru Íslendingar í eldlínunni í tveimur leikjum sem var að ljúka í Sambandsdeild Evrópu. Jón Dagur Þorsteinsson og félagar í AGF töpuðu 2-1 gegn Larne frá Norður-Írlandi og á sama tíma þurftu Óskar Sverrisson og félagar í Häcken að sætta sig við 5-1 tap gegn skoska liðinu Aberdeen.

Það tók leikmenn Larne ekki langan tíma að brjóta ísinn gegn Jóni Degi og félögum, en David McDaid kom heimamönnum yfir eftir þriggja mínútna leik.

Dean Jarvis tvöfaldaði forystu Larne stundarfjórðungi fyrir hálfleik, og staðan því 2-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Jón Dagur var í byrjunarliði AGF, en hann var tekinn af velli eftir tæplega 50. mínútna leik. 

Alexander Ammitzboll minnkaði muninn þegar fimm mínútur voru til leiksloka og þar við sat. Seinni leikur liðanna fer fram í Danmörku eftir viku, og þá þarf AGF á sigri að halda.

Óskar Sverrisson spilaði allan leikinn í liði Häcken sem tapaði 5-1 á útivelli gegn Aberdeen. Valgeir Friðriksson var ónotaður varamaður.

Andrew Considine kom heimamönnum yfir eftir tæplega hálftíma leik áður en Lewis Ferguson tvöfaldaði forystuna af vítapunktinum rétt fyrir hálfleik.

Ferguson var svo aftur á ferðinni á 53. mínútu þegar hann kom Aberdeen í 3-0.

Alexander Jeremejeff minnkaði muninn fyrir gestina eftir tæplega klukkutíma leik, en Christian Ramirez kom heimamönnum í 4-1 þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. 

Connor McLennan gerði svo endanlega út um leikinn á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar hann gulltryggði 5-1 sigur Aberdeen.

Það er því ljóst að Häcken á erfitt verkefni fyrir höndum þegar þeir taka á móti Aberdeen í seinni leik liðanna eftir slétta viku.

Þá fór einnig fram leikur Gent frá Belgíu og Vålerenga frá Noregi. Viðar Örn Kjartansson er á mála hjá Vålerenga, en hann var utan hóps vegna meiðsla þegar liðið steinlá. Lokatölur 4-0, og því ansi brött brekka framundan fyrir Vålerenga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.