Fótbolti

Ítalíu­meistararnir fara heldur ekki til Flórída

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Romelu Lukaku og Lautaro Martinez fara ekki til Flórída.
Romelu Lukaku og Lautaro Martinez fara ekki til Flórída. Getty/Carlo Hermann

Ítalíumeistarar Inter Milan hafa ákveðið að fara ekki til Flórída og taka þátt í samnefndu æfingamóti vegna kórónuveiruna. Aðeins eru tvö lið eftir á mótinu eins og staðan er í dag.

Í fyrradag staðfesti enska knattspyrnufélagið Arsenal að félagið þyrfti að draga sig út úr Flórídabikarnum sem fram fer á Flórída í Bandaríkjunum þar sem upp hefðu komið kórónuveirusmit í herbúðum liðsins. 

Ekki var gefið upp hversu margir einstaklingar voru smitaðir eða hvort um væri að ræða leikmenn eða starfslið.

Inter Milan hefur ákveðið að gera slíkt hið sama segir á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.  Ástæðan er einfaldlega sú að Inter telur það ekk sniðugt að ferðast milli heimsálfa þegar smitum er að fjölga víðsvegar um Evrópu og heim allan.

Skipuleggjendur mótsins stefna enn á að halda það en einu tvö félögin sem eru skráð til leiks eins og staðan er í dag eru enska úrvalsdeildarfélagið Everton og Millonarios frá Kólumbíu. 

Stefnt er að því að halda fjögurra liða mót en hvar skipuleggjendur mótsins ætla að finna tvö félög sem geta mætt til Flórída með skömmum fyrirvara á eftir að koma í ljós en Everton og Millonarios eru mætt til Flórída.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×