Innlent

Yfir 27 stiga hiti á Norðausturhorninu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rjómablíða er á Akureyri.
Rjómablíða er á Akureyri. Vísir/Akureyri.

Óhætt er að segja að veðrið hafi leikið við landsmenn á Norðausturhorni landsins í dag. Hiti mældist víða yfir 27 gráðum.

„Ég held að það sé nokkuð ljóst. Þetta eru það margar mælingar í kringum þetta hitastig. Ég sé enga ástæðu til að rengja það,“ segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur á Veðurstofunni aðspurður um hvort að þær hitatölur sem sjá má á vef Veðurstofunnar yfir hæstu tölur dagsins séu staðfestar.

Mestur hiti mældist á sjálfvirkum veðurmæli á Akureyri við Krossanesbraut, 27,3 gráður, og segir Óli að mælirinn við lögreglustöðina á Akureyri hafi sýnt svipaðar tölur.

Slagar þetta í hitametið á Akureyri sem er 29,9 stig í Innbæ Akureyrar árið 1911. Hæsti hiti sem mælst hefur á mælinum við lögreglustöðina er 29,4 og var það árið 1974.

Á Hallormsstað mældist 27,1 gráðu hiti og á Brú á Jökuldal mældist 26,7 gráðu hiti. Þá er einnig víða heitt á hálendinu. Við Kröflu mældist 25,6 gráðu hiti og vð Upptyppinga mældist 25,2 stiga hiti.

Ástæðan fyrir hinum mikla hita er að sögn Óla mjög hlýtt rakt loft sem kemur til landsins vegna hæðar suður í hafi sem dælir því hingað.

Mikill fjöldi ferðamanna er staddur á Norðausturhorninu til að sækja í hitann. Til að mynda var tilkynnt í dag að tjaldstæðið að Hömrum við Akureyri, eitt stærsta tjaldsvæði landsins væri fullt, og ekki væri hægt að taka við fleiri gestum í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×