Fótbolti

Lið Beckhams bæði það dýrasta og slakasta vestanhafs

Valur Páll Eiríksson skrifar
Staðan er strembin hjá félögunum Phil Neville og David Beckham vestanhafs.
Staðan er strembin hjá félögunum Phil Neville og David Beckham vestanhafs. Michael Reaves/Getty Images

Ævintýri fyrrum knattspyrnuhetjunnar David Beckham með lið sitt Inter frá Miami í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta hefur ekki gengið að óskum enn sem komið er. Liðinu er stýrt af félaga Beckhams, Phil Neville, fyrrum liðsfélaga hans hjá Manchester United, og gengið verið vægast sagt brösugt þrátt fyrir rándýran leikmannahóp liðsins.

Beckham fór fyrir hópi fjárfesta sem tók yfir liðið árið 2014 og fékk leyfi til þátttöku í MLS-deildinni frá og með tímabilinu 2020, í fyrra. Úrúgvæinn Diego Alonso var fyrsti þjálfari félagsins en var rekinn eftir fyrsta árið, í janúar á þessu ári, þar sem hann hafði unnið aðeins sjö leiki af 24 við stjórnvölin.

Inn í hans stað kom Phil Neville, fyrrum liðsfélagi Beckhams hjá Manchester United, sem hefur gengið litlu betur. Inter Miami er með fæst stig í deildinni það sem af er yfirstandandi leiktíð, átta stig eftir ellefu leiki, og aðeins skorað níu mörk. Neville hefur aðeins unnið tvo leiki af ellefu við stjórnvölin.

Fjölmiðlamaðurinn Grant Wahl hjá Sports Illustrated greinir frá því á Twitter að liðið sé það dýrasta í deildinni ef marka má tölur frá MLS. Á mála hjá Inter-liðinu eru meðal annars Frakkinn Blaise Matuidi, mexíkóski landsliðsmaðurinn Rodolfo Pizarro, Bretinn Ryan Shawcross og bræðurnir Federico og Gonzalo Higuaín.

Í maí á þessu ári var félagið sektað vegna brota á félagsskiptareglum deildarinnar þar sem það var fundið sekt um að hafa farið á svig við reglur um launaþak er við kom skiptum Matuidi og Kólumbíumannsins Andrésar Reyes til liðsins. Liðið var sektað um tvær milljónir bandaríkjadala og verður með lægra launaþak tímabilin 2022 og 2023 vegna málsins.

Útlitið er því ekki bjart fyrir framhaldið hjá drengjunum hans Beckham í Miami.

MLS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×