Innlent

Segir nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða á landamærum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor í ónæmisfræðum.
Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor í ónæmisfræðum. Vísir/Einar

Yfirlæknir ónæmisfræðideildar á Landspítalanum segir nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða á landamærum vegna nýrrar stöðu í faraldri kórónuveirunnar hér á landi. Hann telur sterkar líkur á að fólk þurfi endurbólusetningu gegn nýjum afbrigðum á borð við hið bráðsmitandi delta afbrigði.

Yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða á landamærum í ljósi nýrrar stöðu hér á landi.

Flestar konur á meðgöngu og börn óbólusett

„Ég held að það sé nauðsynlegt bara til að vernda okkur öll. Ekki bara heilbrigðiskerfið heldur líka þessa hópa sem eru viðkvæmir. Konur á meðgöngu, börn sem eru óbólusett og svo þessi viðkvæmi hópur sem ég talaði um áðan. Þetta fólk er meira og minna óbólusett og þess vegna finnst mér það svona ákveðin samfélagsleg skylda til að vernda þetta fólk sem eru mikilvægir þátttakendur í samfélaginu eins og við þekkjum öll,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans.

Endurbólusetning líkleg

Hann segir sterkar líkur á því að fólk þurfi endurbólusetningu gegn nýjum afbrigðum eins og delta afbrigðinu sem nú er í miklum vexti erlendis og talið meira smitandi en önnur afbrigði.

„Það eru mörg önnur afbrigði í gangi sem hugsanlega gætu breytt sér það mikið að þessi bóluefni sem við erum að nota núna virka ekki, alveg eins og við þurfum að gera fyrir inflúensu bólusetningu.“

Hann segir ljóst að við þurfum að vera viðbúin að lifa við aðgerðir næstu mánuði, eða þar til betri vörn næst á heimsvísu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.