Innlent

Leggur til að aðgerðir verði hertar á landamærum á ný

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst leggja til breytingar á sóttvarnaaðgerðum á landamærum í ljósi fjölgunar tilfella síðustu daga. Hann vinnur nú að minnisblaði til ráðherra en vill ekki gefa upp hverjar tillögur hans verða. 

„Ég er í samskiptum við ráðherra. Síðan þarf ráðherrann og ríkisstjórnin að fjalla um þær tillögur og taka síðan endanlega ákvörðun um hverju verði hrint í framkvæmd og hverju ekki,“ sagði Þórólfur í samtali við fréttastofu.

Sautján hafa greinst með Covid-19 innanlands síðustu tvo daga og voru níu utan sóttkvíar. Allir hinna smituðu voru fullbólusettir fyrir Covid-19. Fram hefur komið að flest tilfelli megi nú rekja til smita á landamærum og einnig til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu. Flest smitin eru af völdum delta-afbrigðisins svokallaða.

Hvað ætlar þú að leggja til?

„Ég held að það sé ekki réttlátt gagnvart ráðherranum að það sé verið að fjalla um það opinberlega áður en viðeigandi aðilar fjalli um þær tillögur.“

Þórólfur sagði í gær að það komi til greina að krefjast þess að fólk framvísi neikvæðu PCR-prófi við komu þeirra til landsins. 

Ungt fólk að greinast

„Eins og ég hef talað um undanfarna daga þá held ég að það sé forgangsverkefni að reyna að stoppa flutning veirunnar inn í landið. Ég held að það sé ekki endilega kominn tími til að grípa til takmarkana innanlands, við þurfum bara að halda áfram að sjá hvort veikindi verði alvarleg eða smit berist i viðkvæma hópa.“

Fólk sé ekki að veikjast alvarlega núna en þess beri að merkja að ungt fólk hafi verðið að greinast sem veikist alla jafna ekki alvarlega af Covid-19.

Hvað með landamærin, leggur þú eitthvað til þar?

„Ég er bara með tillögur í smíðum fyrir ráðherra.“

Þannig þú ætlar að leggja til aðgerðir?

„Já ég mun gera það,“ sagði Þórólfur.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Segir virkni bóluefna ekki eins góða og vonast var til

Sóttvarnalæknir segir virkni bóluefna gegn kórónuveirunni ekki eins góða og vonast var til. Þá hafi heilsufar áhrif á virkni bólusetninga. Hann íhugar nú að leggja það til að allir sem koma til landsins verði krafðir um neikvætt PCR próf. Tíu fullbólusettir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru fimm utan sóttkvíar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×