Fótbolti

Chiellini lagði bölvun á Saka áður en hann tók síðustu spyrnuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giorgio Chiellini notaði öll trixin í bókinni til að stöðva Bukayo Saka í úrslitaleik EM.
Giorgio Chiellini notaði öll trixin í bókinni til að stöðva Bukayo Saka í úrslitaleik EM. getty/Nick Potts

Giorgio Chiellini lagði bölvun á Bukayo Saka áður en hann tók síðustu spyrnu Englands í vítaspyrnukeppninni gegn Ítalíu í úrslitaleik EM.

Chiellini beitti ýmsum brögðum til að stöðva Saka í leiknum. Í uppbótartíma venjulegs leiktíma greip hann í hálsmálið á treyju hans þegar Arsenal-maðurinn var sloppinn framhjá honum. Fyrir það fékk hann gult spjald.

Saka tók síðustu spyrnu Englands í vítakeppninni og þurfti að skora til að knýja fram bráðabana. Í þann mund sem Saka tók spyrnuna hrópaði Chiellini „Kiricocho“ sem er þekkt fótboltabölvun. Og hún virkaði því Gianluigi Donnarumma varði spyrnu Sakas og tryggði Ítölum Evrópumeistaratitilinn.

Í myndbandi sem birtist á Twitter-síðu ESPN í Argentínu staðfesti Chiellini að hann hefði lagt bölvunina á Saka. „Halló Christian, ég staðfesti allt! Kiricocho!“ sagði varnarjaxlinn.

Juan Carlos Kiricocho var stuðningsmaður argentínska liðsins Estudiantes sem þótti færa liðinu ógæfu. Þjálfari Estudiantes, Carlos Bilardo, sagði að alltaf þegar Kiricocho mætti á æfingar liðsins meiddist leikmaður þess.

Sagan segir að Bilardo hafi seinna fengið Kiricocho til að bjóða andstæðinga Estudiantes velkomna fyrir heimaleiki liðsins til að auka möguleika síns liðs á sigri.

Kiricocho hefur með tímanum orðið þekkt bölvun í fótboltanum, sérstaklega þegar kemur að vítaspyrnum. Yassine Bounou, markvörður Sevilla, hrópaði til að mynda Kiricocho að Erling Håland áður en hann tók víti í leik gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili. Það virkaði ekki jafn vel og hjá Chiellini því Håland skoraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×