Fótbolti

Hetja Ítala valinn besti leikmaður mótsins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Italy v England - UEFA Euro 2020: Final
Laurence Griffiths/Getty Images)

Markvörðurinn Gianluigi Donnarumma var verðlaunaður eftir úrslitaleik Englands og Ítalíu í kvöld. Hann var valinn leikmaður mótsins á nýafstöðnu Evrópumóti.

Donnarumma hélt hreinu í fyrstu þremur leikjum Ítala, sem allir unnust, í riðlakeppninni, en fékk svo á sig eitt mark í hverjum leik í útsláttarkeppninni í kjölfarið. Hann átti gott mót og greip reglulega inn í þegar Ítalir, sem spiluðu sterka vörn, þurfti á því að halda.

Donnarumma varði tvær spyrnur í vítaspyrnukeppninni í kvöld og var hetja Ítalanna í 3-2 sigri í vítaspyrnukeppninni eftir 1-1 jafntefli í venjulegum leiktíma og framlengingu.

Ítalir tryggðu sér því Evrópumeistaratitilinn og Donnarumma var verðlaunaður sem leikmaður mótsins eftir leik. Hann er fyrsti markvörðurinn til að hljóta þá nafnbót.

Donnarumma er aðeins 22 ára gamall en hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 215 deildarleiki fyrir AC Milan á Ítalíu og 32 landsleiki fyrir Ítali. Samningur hans í Mílanó rann út um síðustu mánaðarmót og er hann sagður á leið til Paris Saint-Germain í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×