Fótbolti

Bara síðasti sentímetrinn eftir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Chiellini hrósar þjálfaranum Roberto Mancini.
Chiellini hrósar þjálfaranum Roberto Mancini. Claudio Villa/Getty Images

Giorgio Chiellini, varnarmaður ítalska karlalandsliðsins í fótbolta, kveðst bjartsýnn fyrir komandi leik liðsins við England í úrslitum Evrópumótsins í kvöld. Þetta kann að vera hans síðasti séns til að vinna titil á stórmóti.

Chiellini er 36 ára gamall miðvörður sem hefur spilað alla leiki ítalska liðsins á mótinu. Liðið vann Spán í undanúrslitum eftir vítaspyrnukeppni til að tryggja sæti sitt í úrslitaleiknum í kvöld.

„Þetta er draumur sem við höfum elt í gegnum árin, draumur sem við höfum borið í þrjú ár, draumur sem þjálfarinn kom hægt og rólega í höfuðið á okkur þangað til að hann varð að veruleika,“ segir Chiellini

Chiellini hrósar Roberto Mancini, þjálfara ítalska liðsins, en þegar hann tók við hafði Ítalía misst af sæti á HM 2018. Liðið hefur nú ekki tapað fótboltaleik í þrjú ár.

„Þegar hann [Mancini] sagði okkur í upphafi að hafa hugmyndina um að vinna EM í huga okkar, þá fannst okkur hann vera klikkaður. Svo hefur hann nú búið til lið sem er hársbreidd frá því að gera það. Hann hefur endurtekið við okkur eftir hvern leik: 'Einn sentímetra í einu', og nú er aðeins þessi síðasti sentímetri eftir.“ segir Chiellini.

Úrslitaleikur Ítalíu og Englands hefst klukkan 19:00 á Wembley í Lundúnum í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 EM og Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leik hefst klukkan 18:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×